Náði að forða sér út úr bústaðnum

Um tuttugu slökkviliðsmenn komu að slökkvistarfinu.
Um tuttugu slökkviliðsmenn komu að slökkvistarfinu. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Einn maður komst út úr sumarbústað við Þingvallavatn eftir að eldur kom þar upp á áttunda tímanum í kvöld. Fleiri voru ekki inni.

Stuttu síðar brann bústaðurinn nokkurn veginn til grunna.

Maðurinn tilkynnti sjálfur um brunann. Tilkynnt var um miklar sprengingar en Sverrir Haukur Grönli, varaslökkviliðsstjóri segir að það hafi líklega verið gaskútar að springa.

„Bústaðurinn brann mjög hratt upp,“ segir Sverrir sem bætir því við að umhverfið í kringum bústaðinn sé varhugavert ef eldur kemur upp en það fyrsta sem slökkviliðsmenn hugi að sé hvort einhver sé inni í brennandi húsi.

Lið frá tveimur stöðum var sent á vettvang.
Lið frá tveimur stöðum var sent á vettvang. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu

Eldfimt umhverfi

„Þarna er orðinn svolítið vaxinn gróður, há tré og sumarhúsabyggð þannig að við erum hræddir við útbreiðsluna og þá leggjum við planið út frá því. Slökkviliðsmaður frá okkur var þarna á staðnum þannig að við fengum mjög fljótt góðar upplýsingar.“ Sá var þó ekki í bústaðnum. 

Slökkviliðsmenn eru enn að störfum. „Það er enn fullt af mannskap á staðnum að slökkva í allri glóð og tryggja það að þetta kvikni ekki aftur,“ segir Sverrir. Eldsupptök eru ókunn en þegar slökkviliðið hefur lokið sínu starfi afhenda slökkviliðsmenn lögreglu vettvanginn.

Óttast var að eldurinn bærist í gróður.
Óttast var að eldurinn bærist í gróður. Ljósmynd/Brunavarnir Árnessýslu
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert