Elliðaárnar opnaðar með flugu og laxinum sleppt

Þorvaldur Daníelsson, þekktur sem Valdi í Hjólakrafti, glímdi við fyrsta …
Þorvaldur Daníelsson, þekktur sem Valdi í Hjólakrafti, glímdi við fyrsta lax sumarsins í Elliðaánum í Teljarastreng. Sat hann við veiðarnar eftir að hafa slitið hásin í vikunni. mbl.is/Einar Falur

„Er ekki gaman að þessu?“ spurði Ásgeir Heiðar veiðileiðsögumaður Þor­vald­ Daní­els­son þar sem hann sat snemma á morgun á kolli við Teljarastreng og togaðist á við lax sem lét hafa vel fyrir sér.

„Þetta er stuð!“ svaraði Þorvaldur brosandi. Og skömmu síðar var um sjö punda hrygna komin í háf Ásgeirs og síðan stilltu þeir sér upp með laxinn og fjöldi viðstaddra fjölmiðla- og veiðiáhugamanna tók myndir. Laxinn var sá fyrsti úr Elliðaánum í sumar og tók flugu sem Ásgeir hnýtti og kallar LOF (Lord of Flies). Honum var sleppt að myndatöku lokinni.

Þetta var í fyrsta skipti sem veiði í Elliðaánum hefst með fluguveiði eingöngu en sú breyting var gerð á þessari góðu veiðiá fyrir sumarið, að ráði fiskifræðinga, að einungis er leyft að veiða á flugu og skal öllum laxi sleppt.

Ásgeir Heiðar veiðileiðsögumaður háfaði laxinn fyrir Þorvald fyrir neðan Teljarastreng.
Ásgeir Heiðar veiðileiðsögumaður háfaði laxinn fyrir Þorvald fyrir neðan Teljarastreng. mbl.is/Einar Falur

Þorvaldur hefði kosið að geta staðið við veiðarnar en hann sleit hásin í fótbolta fyrr í vikunni og þarf því nú að styðja sig við hækjur. Áður en veiðin hófst kynnti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að Þorvaldur sé Reyk­vík­ing­ur árs­ins 2020. Hann er fimm­tug­ur Breiðhylt­ing­ur og er sjald­an kallaður annað en Valdi í Hjólakrafti, þar sem hann kapp­kost­ar að ná ungu fólki úr van­virkni í virkni með hjól­reiðum.

Undanfarin ár hefur sá sem valinn er Reykvíkingur ársins hafið veiðar í Elliðaánum í fylgd borgarstjóra.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti í annan laxinn í Elliðaánum …
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri setti í annan laxinn í Elliðaánum í ár neðarlega á Breiðunni og lét laxinn hafa nokkuð fyrir sér. Ásgeir Heiðar var veiðimanninum til aðstoðar. mbl.is/Einar Falur

Að því er seg­ir í til­kynn­ingu frá Reykja­vík­ur­borg vann Þor­vald­ur hjá Krafti stuðnings­fé­lagi ungs fólks með krabba­mein 2012 þegar hon­um datt í hug að stofna vís­inn að Hjólakrafti, fyr­ir ungt fólk með marg­vís­leg­an vanda. Í dag snert­ir Hjólakraft­ur líf um 500 ein­stak­linga á höfuðborg­ar­svæðinu og víðar. Borgarstjóri sagði hreint ótrúlegt að heyra frá bæði foreldrum og börnunum sjálfum hvað það starf sem Valdi standi fyrir gefi börnunum mikið. Hann hafi til að mynda hjólað sex sinnum með hópa barna kringum landið. Starfi sínu stýrir Þorvaldur nú frá Arnarbakka, þar sem borgin er með nokkur samfélagsleg verkefni í hverfiskjarna sem hefur látið á sjá en er aftur farinn að blómstra.

Eftir að hafa glímt við laxinn í morgun sagði Þorvaldur blaðamanni að þetta væri aðeins annar laxinn sem hann veiðir og það hafi verið mjög skemmtilegt.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri reyndi um hríð að setja í lax í Teljarastreng en þótt laxar kæmu og skoðuðu flugu hans tóku þeir ekki. Þá var gengið niður að Breiðunni, neðst í ánni, þar sem Dagur tók að kasta og bar sig vel við veiðarnar, en viðstaddir sögðu hann hafa sótt kastnámskeið í gær. Nýir laxar voru að renna sér í hyllin, þar sem þeir stukku og skvettu sér, og eftir nokkra stund tók einn þeirra neðst á breiðunni. Borgarstjóri mátti elta hann um stund með bakkanum og tók laxinn nokkur tignarleg stökk áður en hann endaði í háfi Ásgeirs Heiðars og skömmu síðar á mörgum myndum í höndum Dags.

Eftir að hafa haft hendur á sprækum smálaxinum stillti borgarstjóri …
Eftir að hafa haft hendur á sprækum smálaxinum stillti borgarstjóri sér upp í myndatöku við Breiðuna. mbl.is/Einar Falur

Jón Þór Ólason, formaður Stangaveiðifélags Reykjavíkur, var á bakkanum og fylgdist með opnun ánna. Félagið var stofnað fyrir 81 ári, einmitt um veiðina í ánum, og stýrir henni enn. Jón Þór segir að vissulega hafi ekki allir verið sáttir við að bannað yrði að veiða á maðk og að öllum laxi yrði að sleppa, eftir að tveggja laxa kvóti á vakt hafi verið undanfarin ár. „Við fengum skýrslu frá Hafrannsóknastofnun um ástandið í Elliðaánum og þótti ljóst að veiði síðustu 20 til 25 ára hefur verið fyrir neðan meðallag. Það er okkar skylda að vernda og hlúa að laxastofninum í ánum og það liggur fyrir að hrygningarstofninn hefur verið of lítill. Það þarf þúsund hrygnur í árnar og málið var skoðað vel og ítarlega. Maðurinn hefur þrengt verulega að ánum gegnum árin og við urðum að taka þetta frumkvæði til að sjá til þess að komandi kynslóðir geti líka notið þeirra forréttinda að geta veitt í Elliðaánum. En þetta var ekki flókið hér í morgun, það þurfti bara nokkur köst til að setja í fyrsta laxinn!” sagði Jón Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert