Vilja lækka tekjuskatt í 24%

Frá flokkráðsfundi Miðflokksins í dag sem var haldinn rafrænt. Hér …
Frá flokkráðsfundi Miðflokksins í dag sem var haldinn rafrænt. Hér er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður flokksins. mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Á meðal þess sem Miðflokkurinn leggur til að stjórnvöld ráðist í vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins er lækkun staðgreiðslu skatta, tekjuskatts og útsvars í 24% til loka árs 2021. Þetta kemur fram í ályktun flokkráðsfundar Miðflokksins sem fram fór í dag. 

Þar segir að Miðflokkurinn telji nauðsynlegt að þegar í stað verði ráðist í almennari og einfaldari aðgerðir en þær sem ríkisstjórnin hefur beitt til að koma til móts við þann bráðavanda sem steðjar að heimilum og fyrirtækjum landsins.

Miðflokkurinn vill að markmið slíkra aðgerða séu eftirfarandi:

  • Verja kjör og auka ráðstöfunartekjur
  • Verja störf og auðvelda atvinnulífinu sókn á erfiðum tímum
  • Gera ferðaþjónustufyrirtækjum kleift að leggjast í dvala
  • Efla innlenda matvælaframleiðslu
  • Skýra eignarhald ríkisins yfir auðlindum þjóðarinnar og tryggja áfram hagkvæma nýtingu
  • Einfalda þarf ríkisrekstur og hagræða, en veita um leið meira fé til uppbyggingar innviða

Í tillögum Miðflokksins fyrir heimilin er lagt til að greiðslur vaxta og verðbóta vegna fasteignalána atvinnulausra falli niður í allt að 18 mánuði, vísitöluhækkanir verði bannaðar tímabundið, skerðingar á greiðslum til eldriborgara og lífeyrisþega séu afnumdar. 

Vilja að samþykkt um þriðja orkupakkann sé afturkölluð

Í tillögum flokksins fyrir atvinnulífið er m.a. lagt til að tryggingargjald verði fellt niður í 12 mánuði, 24 mánaða vaxtaþak verði lögfest á fryst lán fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli, greiðslum fasteignagjalda vegna atvinnuhúsnæðis verði frestað til september 2022 vaxtalaust. Sveitarfélögum verði bættur sá tekjumissir sem af því hlýst. 

Þá vill Miðflokkurinn að innlend matvælaframleiðsla verði efld, stuðningur við landbúnað sé aukinn, innflutningur á frosnu kjöti og eggjum sé stöðvaður o.fl. 

Þá kallar Miðflokkurinn eftir því að frekari innleiðingu á orkustefnu ESB sé hafnað og samþykkt um þriðja orkupakkan sé afturkölluð. 

Að auki telur Miðflokkurinn að einfalda þurfi ríkisrekstur „og hagræða en um leið verði meira fé varið til uppbyggingar innviða“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert