Fyrri aðgerðir ekki gagnslausar

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að þær aðgerðir sem tóku gildi á miðnætti séu smíðaðar með það í huga að fækka heildarsmitum dag hvern. Hann segir að þó verið sé að herða að núna, megi ekki gleyma að fyrri aðgerðir hafi skilað árangri, nú sé bara verið að reyna að ná fullnægjandi árangri. Hann segir lítið þurfa út af að bregða svo að faraldurinn fari ekki í veldisvöxt.

„Þetta hefur verið að hlaupa svona upp og niður undanfarna daga,“ segir Þórólfur við mbl.is. „Tölurnar yfir fólk sem eru utan við sóttkví þegar það greinist er heldur upp á við ef eitthvað og það er eitthvað sem við höfum áhyggjur af,“ bætir hann við.

Samfélagssmit eykur líkur á hópsmiti

„Þessar aðgerðir sem hafa verið eru ekki að keyra þetta nægilega vel niður, við erum kannski í svona línulegum vexti. Lítið má út af bregða til þess að upp komi stór hópsmit eins og á Landakoti, þess vegna var ákveðið að herða hérna aðgerðir.“

En nú var hópsmitið á Landakoti ekki beint vegna einhvers fjölda fólks sem kom saman, var það ekki frekar þannig að starfsmaður kom með smit inn á spítalann? Munu hertar aðgerðir koma í veg fyrir það?

„Nei, þú verður að hugsa þetta skrefinu lengra, sjáðu til. Vissulega var engin hópamyndun á Landakoti, en það var víðtækara samfélagssmit úti í samfélaginu öllu og því mun meiri líkur á að starfsmaður spítalans myndi smitast. Þess vegna verðum við að tryggja að það sé ekki mikið samfélagssmit svo að það berist ekki til viðkvæmra hópa eins og gerðist þarna.“

Markmiðið, eftir sem áður, að fækka smitum

Tækifærið til þess að fækka smitum í samfélaginu kemur ekki upp úr þurru, til þess þarf að hægja á vexti faraldurins. Þórólfur segir að fyrri aðgerðir hafi gert það að verkum að hér sé ekki veldisvöxtur.

„Það má ekki gleyma að þessar aðgerðir sem við gripum áður til, þær voru ekki gagnslausar. Þær gerðu það að verkum að faraldurinn er ekki í neinum veldisvexti eins og annars hefði getað orðið, þær aðgerðir skiluðu árangri en kannski ekki fullnægjandi árangri.“

Óákveðið með landamærin

Þórólfur segist vera að vinna að gerð minnisblaðs um breytt fyrirkomulag á landamærum Íslands. Þar geta komufarþegar nú valið um að fara í tvöfalda skimun með stuttri sóttkví á milli eða í 14 daga sóttkví með engri skimun. Hann segir að ekkert sé búið að ákveða hvort því verði breytt en segir þó að koma verði í veg fyrir að fólk segi eitt en geri annað.

„Við höfum séð að fólk velji þessa 14 daga sóttkví en svíkist síðan undan því, það verður að koma í veg fyrir það með einhverjum hætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert