Mögulega ummerki um gervigígasprengingu

Reykjandi sprungur í grennd við gossvæðið í Geldingadölum hafa vakið athygli á facebookhópnum Jarðsöguvinum. Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir að sprungurnar gætu þýtt ýmislegt. 

Þorvaldur segir að fjöldi sprungna í jarðvegi hafi myndast fyrir gosið og líklega einnig eftir að það hófst. 

„Maður ætti ekki að vera hissa í sjálfu sér að sjá gufu koma upp úr einhverjum þeirra,“ segir Þorvaldur. 

„Eitt sem við þurfum kannski að skoða betur er að á nokkrum stöðum er eins og það sé gos að byrja upp í gegnum hraunið þar sem hefur verið að flæða. Það hafa komið svona slettur upp í einhvern tíma og svo hefur þetta verið að deyja út. Það gætu verið svona svipaðar sprungur þar sem kvikan hitar grunnvatnið og loftið sem er í þessum sprungum og þær þá rísa upp í gegnum hraunið,“ segir Þorvaldur og bætir við:

„Hinn möguleikinn er að í sumum tilfellum gæti verið að bráðið hraunið sé að komast í samband við vatnsósa undirlagið. Ef það gerist þá hvellsýður vatnið í drullunni undir, þenst út mjög hratt og veldur því sem er kallað gervigígasprenging eða gervigígagos. Ég velti því fyrir mér hvort við séum að sjá fyrstu ummerki um eitthvað slíkt.“

Eldgosið í Geldingadölum.
Eldgosið í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ný gossprunga ekki útilokuð

Þorvaldur segir ekki útilokað að reykjandi sprungur séu merki um að ný gossprunga sé að myndast. 

„Það gæti líka verið það að gangurinn hefur náð að hita upp grunnvatn sem kemur síðan upp um einhverjar sprungur. Það þarf ekki að þýða að það sé að koma gos annars staðar en það gæti verið vísbending um slíkt. Það þarf að skoða hvert tilfelli fyrir sig, ef það er t.a.m brennisteinn í gasinu sem kemur upp bendir það til þess að það sé kvika á bak við það. Ef þetta er bara vatnsgufa bendir það til þess að þetta sé bara upphitun á grunnvatninu,“ segir Þorvaldur. 

Þá segir Þorvaldur að gosið virðist að öðru leyti samt við sig. Framleiðnin sé svipuð og undanfarna daga og litlar breytingar hafi orðið. 

„Þetta heldur bara áfram að krauma. Hraunið sem er á leiðinni út úr Geldingadölum til austurs virðist vera að færa sig bara hægt og rólega, það er ekki að fara neitt með hraði. Hvort það nær því að fara eitthvað mikið lengra en það er komið er spurning.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert