Lætur tiltalið ekki stöðva sig og gagnrýnir áfram

Séra Davíð Þór Jónsson sóknarprestur og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Séra Davíð Þór Jónsson sóknarprestur og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Samsett mynd

Formlegt tiltal biskups virðist ekki hafa dregið úr eldmóði séra Davíðs Þórs Jónssonar og hefur hann nú líkt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vinstri grænna, við farísei.

Þetta má lesa úr færslu hans á Facebook þar sem hann svarar Katrínu eftir að hún brást við ummælunum sem hann lét falla í gær þar sem hann gagnrýndi Vinstri græn fyrir áform stjórnvalda um að vísa 300 flóttamönnum úr landi. Sagði hann sérstakan stað í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur. Fékk Davíð Þór formlegt tiltal biskups vegna ummælanna.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að orð Davíðs Þórs dæmi sig algjörlega sjálf.

Við þessu brást Davíð Þór aftur og birti áðan færslu þar sem hann vitnar í Jesú. 

„Jesús: Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Höggormar og nöðrukyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm? Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg. Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð sem úthellt hefur verið á jörðinni,“ segir í færslunni.

„Farísei: Þessi orð dæma sig sjálf,“ segir í lokin og vísar hann þá augljóslega til Katrínar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert