Starfsfólk kom í veg fyrir stærra tjón

Verksmiðja Elkem á Grundartanga.
Verksmiðja Elkem á Grundartanga. mbl.is

Eldurinn sem kviknaði í Elkem á Grundartanga í nótt kom frá búnaði í framleiðsluofni járnblendisverksmiðjunnar. Útlit er fyrir að einn af þremur ofnum verði ótiltækur á meðan á viðgerð stendur. 

„Starfsfólkið stóð sig með eindæmum vel í að koma í veg fyrir að það yrði meira tjón og þeir eiga mikið hrós skilið fyrir það. Það slasaðist enginn og þeir náðu að koma í veg fyrir stærra tjón,“ segir Álfheiður Ágústsdóttir, forstjóri Elkem á Íslandi.

Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi.
Álfheiður Ágústsdóttir forstjóri Elkem á Íslandi.

Ekki ljóst hvernig eldurinn kviknaði

Upptök eldsins eru óljós að sögn Álfheiðar. „Þetta gæti hafa verið blossi frá framleiðslunni, gæti hafa verið rafmagnsbruni í mótor eða eitthvað slíkt. Við vitum það ekki á þessu stigi máls,“ segir hún. Eldurinn kviknaði undir svokölluðum töppunarpalli. Útilokað er að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað að sögn Álfheiðar.

Ekki er ljóst hve mikið tekjutap verður af þessu þar sem ekki er ljóst hve lengi ofninn verður ótiltækur. „Það verður framleiðslutap þegar við erum með einn ofn úti. Síðan er einhver kostnaður falinn í viðgerð og vegna tjóns á búnaði,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert