Dýrara að leggja í bílakjallara en á flugvellinum

Hafnartorg hefur sett sterkan svip á miðborg Reykjavíkur.
Hafnartorg hefur sett sterkan svip á miðborg Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dýrara er að leggja bíl í bílakjallaranum í Hafnartorgi heldur en fyrir einkaflugvél að leggja á Reykjavíkurflugvelli.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Borin eru saman fimm daga stæði fyrir einkaflugvél á flugvellinum og sama tíma í bílakjallaranum við Hafnartorg. Fyrir einkaflugvél í minni kantinum kostar 35.485 krónur að leggja þennan tíma en 39.000 krónur í Hafnartorgi.

Geta má að ódýrara er að leggja í bílakjöllurum á vegum Reykjavíkurborgar.

Ódýrara gjald fyrir flugvélar en á P1

Á fimmtudaginn kom fram í Morgunblaðinu að sumir telja þau gjöld sem þurfi að greiða fyrir komu á einkaþotu til landsins vera of lág og hafa aðrir jafnvel grínast með að ódýrara sé að leggja einkaþotu á flugvellinum en að leggja bíl í miðbænum.

Samkvæmt gjaldskrá Isavia fyrir Reykjavíkurflugvöll kostar ekkert að leggja einkaþotu á vellinum fyrstu sex tímana en eftir það eru rukkaðar 1.545 krónur fyrir hvert tonn af hámarksflugtaksmassa þotunnar fyrir sólarhring en 945 krónur á tonn eftir fyrstu tvo sólarhringana. Hámarksflugtaksmassi þotunnar Gulfstream G650 er 45,2 tonn og miðað við það myndi fyrsti sólarhringurinn kosta um 70 þúsund krónur.

Ofan á það kemur síðan lendingargjald, farþegagjöld, flugverndargjald og fleira, sem um munar. Bílastæði í miðbæ Reykjavíkur kostar um 3.465 krónur á sólarhring.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert