„Mjög slæmt“ ef vegurinn færi í sundur

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að beðið sé eftir hraunflæðilíkönum.
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir að beðið sé eftir hraunflæðilíkönum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ef og þegar fer að styttast í það að hraun geti flætt yfir Suðurstrandarveg þá yrði það auðvitað mjög slæm staða. Við stóðum frammi fyrir því í fyrra gosi að það gæti gerst,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, í samtali við mbl.is.

Ármann Höskuldsson, eldfjallafræðingur, sagði við mbl.is í dag að það gæti tekið hraunið úr eldgosinu um tvær til þrjár vikur, eða jafnvel nokkra daga, að komast að Suðurstrandarvegi ef sami kraftur helst í gosinu áfram.

„Við treystum á þá vísindamenn sem eru okkur til ráðgjafar og bíðum svolítið eftir hraunflæðilíkönum,“ segir Fannar.

Skoðað rækilega í fyrra gosi

„Við þessu er í sjálfu sér lítið að gera. Það var skoðað mjög rækilega í fyrra hvort hægt væri að setja upp einhvers konar leiðigarða og aðgerðir til þess að koma í veg fyrir að hraun rynni yfir veginn. Niðurstaðan var sú að það væri ekki raunhæft og mikill kostnaður sem því myndi fylgja þó það væri reynt og árangurinn óviss,“ segir Fannar, spurður um aðgerðir.

„Við getum ekki séð langt fram í tímann, hvað kann að gerast varðandi þetta gos, en það væri mjög slæmt allra hluta vegna ef Suðurstrandarvegurinn færi í sundur, það er ekki hægt að neita því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert