Hækka um 19 launaflokka með nýjum samningi

Ólafur segir að slökkviliðsstjórar, sérstaklega í litlum umdæmum, hafi ekki …
Ólafur segir að slökkviliðsstjórar, sérstaklega í litlum umdæmum, hafi ekki verið í sérstaklega góðri samningsaðstöðu áður fyrr. Þeir hafi oft sætt sig við illa borgaða bakvakt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðsstjórar í hlutastarfi, sem kjarasamningar hafa áður fyrr ekki náð yfir nema að hluta til, hækka um 19 launaflokka með nýjum kjarasamningi Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS).

Þetta segir Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri, í samtali við mbl.is. Ólafur er einnig formaður fagdeildar LSS og formaður viðræðunefndar.

Slökkviliðsstjór­ar og aðrir stjórn­end­ur slökkviliða samþykktu sinn fyrsta kjara­samn­ing við Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga í ra­f­rænni kosn­ingu sem lauk í gær.

Ólafur segir að þar síðasti kjarasamningur hafi ekki átt við slökkviliðsstjóra í hlutastarfi nema 14. kafli samningsins sem var sér kafli fyrir slökkviliðsmenn í hlutastarfi. Þar hafi þeir verið í öðrum launaflokki en aðrir slökkviliðsstjórar. Þessum kafla var eitt út í síðasta almenna kjarasamningi.

„Samhliða því var hann ekki tekinn með í þessum nýja kjarasamningi og fóru þeir í sama starfsmat og aðrir og hækka um 19 launaflokka og eru að fara í sama launaflokk og þeir sem eru í fullu starfi,“ segir Ólafur.

Launaleiðrétting ekki launahækkun

Í tilkynningu frá LSS segir að launaflokkabreytingar slökkviliðsstjóra hafi verið gerðar samhliða þessum kjarasamningi og hafi tekið gildi óháð honum.

Þar segir að launaflokkabreytingarnar hafi komið til vegna þess að þessi störf, sem fram til 1. febrúar 2022 hafi verið raðað utan starfsmats. Þau hafi verið metin í starfsmati er gilti frá því í febrúar á þessu ári og byggðist á bókun 13 í gildandi almenna kjarasamningi aðila.

„Þær hækkanir sem starfsmatið skilaði eru því ekki umsamdar launahækkanir í þessum nýja kjarasamningi slökkviliðsstjóra heldur leiðrétting launa miðað við nýtt mat frá verkefnastofu Starfsmats,“ segir í tilkynningunni.

Tvö stöðugildi verða fimm

Ólafur segir að niðurstaða starfsmats sem gert var áður en kjarasamningurinn var gerður var að skipta tveimur stöðugildum slökkviliðsstjóra í fimm stöðugildi.

„Í stórum dráttum var áður slökkviliðsstjóri og varaslökkviliðsstjóri. Nú eru þetta slökkviliðsstjórar hjá slökkviliðum a,b og c og svo varaslökkviliðsstjórar hjá slökkviliði a, eða hjá b og c. Semsagt það er eitt stöðugildi varaslökkviliðsstjóri hjá slökkviliði b og c.“

Ólafur segir að skilgreiningin fari eftir íbúafjölda og verkefnum, hvort að séu sólahringsvaktir eða sjúkraflutningar og svo framvegis.

Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri.
Ólafur Stefánsson, slökkviliðsstjóri á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Slökkvilið verði færri og stærri

Ólafur segir að slökkviliðsstjórar, sérstaklega í litlum umdæmum, hafi ekki verið í sérstaklega góðri samningsaðstöðu áður fyrr. Þeir hafi oft sætt sig við illa borgaða bakvakt.

„Nú er þá bara búið að koma þessu inn í kjarasamning þannig það er kominn rammi utan um þetta. Þar er þó heimild fyrir undanþágu fyrir slökkvilið c og í einhverjum tilvikum fyrir slökkviliði b. Svo er kominn ákveðinn rammi sem verður ekki farið niður fyrir,“ segir hann. 

„Þetta er samt alltaf erfitt því það eru misjafnar aðstæður hjá sveitarfélögunum og getur verið ansi dýr biti fyrir lítil sveitarfélög. Þróunin er samt í þá átt að slökkviliðum er að fækka og mun halda áfram að fækka og stækka. Ég tel að þessi kjarasamningur muni ýta undir þá þróun, þannig að kostnaðurinn dreifist á fleiri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert