„Framboðshliðin er vandinn okkar"

Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Stóra vandamálið sem Íslendingar standa frammi fyrir á húsnæðismarkaði er að ónógt framboð er af húsnæði. Þetta segir Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. Hann kynnti í morgun nýtt fjárlagafrumvarp fyrir komandi ár. Sagði hann að sérstaklega mætti eiga von á því að útgjöld vegna húsnæðismála myndu taka breytingum í meðförum þingsins. Þetta væri eitt af þeim málum þar sem ríkisstjórnarflokkarnir vildu koma á framfæri sínum áherslum.

Í fjárlagafrumvarpinu, sem Bjarni kynnti, batnar afkoma ríkissjóðs um 100 milljarða frá því á þessu ári. Þó er enn gert ráð fyrir að hallinn á rekstri ríkisins verði um 89 milljarðar. „Mér finnst það mjög stórt mál að afkoman sé að batna og skuldahlutföllin eru allt önnur en við óttuðumst í miðjum heimsfaraldrinum,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is eftir kynningarfundinn. „Það eru líka vísbendingar um að við séum að ná tökum á verðbólgunni og það skiptir miklu máli. Við viljum beita ríkisfjármálunum svo þær spár gangi eftir,“ segir hann einnig. Í kynningunni var mikil áhersla lögð á að fjárlögin tækju mið af því að draga úr þeirri þenslu sem hefur verið undanfarið.

Vonast til að aðgerðir í húsnæðismálum dragi úr verðbólgu

Sagði Bjarni að þær tillögur sem hann vonaðist eftir að kæmu fram í haust um húsnæðismál myndu jafnvel hafa enn frekari áhrif til að draga úr verðbólgunni. „Framboðshliðin er vandinn okkar um þessar mundir. Það er ónægt framboð af húsnæði.“ Vísar Bjarni til þess að innviðaráðherra hafi þegar kynnt fjölþættar aðgerðir í þessum málaflokki, m.a. rammasamning við sveitarfélög um að setja kastljósið á það hvar sé hægt að brjóta land undir nýja byggð og skipuleggja svæði með það fyrir augum að auka framboð húsnæðis.

Geti nýtt tilgreinda séreign um áramót

„Svo er spurning um umfang þess húsnæðis sem ríkið hefur beina eða óbeina aðkomu að, annað hvort í gegnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnun eða með stofnstyrkjum eða hlutdeildarlánum. Mér finnst að vinnan hljóti meðal annars að snúa að því að leggja mat á umfang þess,“ segir hann.

Bjarni benti í kynningu sinni einnig á að um næstu áramót geti fyrstu kaupendur nýtt tilgreinda séreign sína til að greiða inn á lán. „Það mun skipta mjög miklu máli og mestu máli fyrir tekjulága,“ segir hann.

Hækka bætur almannatrygginga um 9%

Spurður út í breytingar á bótakerfinu í nýjum fjárlögum segir Bjarni að bæði hafi ýmislegt verið gert og búast megi við frekari breytingum. Á miðju þessu ári hafi verið gripið til aðgerða til að standa með tekjulágum. „Það er sérstakur barnabótaauki, aukinn húsnæðisstuðningur og svo voru bætur almannatrygginga hækkaðar. Nú stendur yfir vinna við að endurskoða barnabótakerfið sem til stendur að kynna í haust. Þá hækka bætur almannatrygginga um áramótin um 9% frá upphafi þessa árs til upphafs næsta árs,“ segir hann.

Spurður hvort hann telji að með þessu verði hægt að viðhalda kaupmætti tekjulægsta hópsins, þegar horft sé til þeirrar miklu verðbólgu sem er uppi núna, segir Bjarni að ef horft sé á heildarumfangið þá muni það takast. „En auðvitað er erfitt að fullyrða um stöðu allra einstaklinga þar sem staða þeirra er svo misjöfn,“ segir hann.

Unnið markvisst að því að draga úr umfangi vaxtabóta

Bendir Bjarni á að margir hafi beint sjónum sínum að þeim sem horfast nú í augu við hækkandi greiðslubyrði vegna húsnæðislána. „En það sem skiptir máli er að við erum til dæmis að afnema stimpilgjöld af endurfjármögnun og fólk getur fært sig yfir í meira skjól samhliða því að verðtryggð lán hækka.“ Bætir hann við að samhliða hækkun verðtryggðra lána hafi eignastaða einnig batnað verulega og að það eigi við um eiginfjárstöðu flestra heimila þrátt fyrir hærri verðbólgu.

Hækkandi eigið fé með hækkandi fasteignamati hefur þau áhrif að 2.800 manns sem áður fengu vaxtabætur verða nú skertir að fullu og að í heildina muni skerðing koma til hjá um 90% þeirra sem fengu einhverjar vaxtabætur. Spurður út í það hvort það komi til greina að mæta þessum hópi á einhvern hátt, segir Bjarni að markvisst hafi verið unnið að því að draga úr umfangi vaxtabótakerfisins og færa þann stuðning yfir í almenna íbúðakerfið. Hann birtist nú í stofnstyrkjum og í auknum leigubótagreiðslum. „Það má segja að fjármögnun á hlutdeildarlánunum sé líka hluti af aðgerðum sem við vildum að tækju við af vaxtabótakerfinu og ég á von á því að það muni koma tillögur frá húsnæðishópnum um framtíð vaxtabótakerfisins,“ segir Bjarni.

Undanfarið hefur bæði verið umtalsverð verðbólga og launahækkanir. Spurður, hvort eitthvað hafi verið horft til þess að breyta fyrirkomulagi á skattleysismörkum, segir Bjarni að áður hafi þau þróast eftir launavísitölu. Þegar tekjuskattskerfinu hafi verið breytt hafi verið horfið af þeirri braut og nú sé miðað við framleiðsluaukningu í hagkerfinu. „Það er góður mælikvarði tel ég og ætti að tryggja að launin haldi verðgildi sínu frá einum tíma til annars og nálgast að vera í takt við launaþróun í landinu. Það er ekkert vit að hækka skattleysismörkin alltaf ef laun hækka umfram framleiðnivöxtinn.“

Vongóður um að ná tökum á verðbólgunni von bráðar

Í síðasta mánuði lækkaði verðbólgan samkvæmt Hagstofunni úr 9,9% niður í 9,7%. Spurður hvort hann telji þetta vera hápunkt verðbólgutímabilsins segir Bjarni að hann ætli ekki að setjast í sæti spámanns. „En ég er sannfærður um að aðgerðir Seðlabankans eru farnar að hafa áhrif og einnig sannfærður um að aðgerðirnar sem við erum að boða hafi áhrif. Ég er ágætlega vongóður um að við náum tökum á þessu von bráðar,“ segir hann.

Varðandi langtímaverðbólguhorfur segir hann að langur vegur sé enn frá tæplega 10% verðbólgu niður í 2,5% verðbólgumarkmið. Hins vegar muni um hvert prósentustig og segist hann hafa góða tilfinningu fyrir því að með ríkisfjármálunum sé verið að stíga skynsamlegt skref í rétta átt í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert