Ragnar, Sólveig og Vilhjálmur hætta við

Ragnar Þór, Sólveig Anna og Vilhjálmur.
Ragnar Þór, Sólveig Anna og Vilhjálmur.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, hefur dregið til baka framboð sitt til embættis forseta Alþýðusambands Íslands (ASÍ), samkvæmt heimildum mbl.is. Mun hann hafa borið fyrir sig að ekki væri útlit fyrir samstaða næðist innan sambandsins.

Þá hafa Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og Verkalýðsfélags Akraness, einnig dregið til baka framboð sín í embætti 2. og 3. varaforseta ASÍ.

Heimildir mbl.is herma að legið sé undir feldi hvort þessi félög eigi að segja sig úr ASÍ, en Ragnar hefur oftar en einu sinni viðrað þá hugmynd. Síðast í viðtali við mbl.is í gær.

Ragnar Þór hefur dregið framboð sitt til forseta ASÍ til …
Ragnar Þór hefur dregið framboð sitt til forseta ASÍ til baka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vísaði til færslu Halldóru

Þá sagði Ragnar það þingfulltrúa að taka ákvörðun um hvort verkalýðshreyfingin myndin sameinast á vettvangi ASÍ eða liðast í sundur. VR væri stórt félag sem gæti hugsað um sig sjálft, en hvort það væri hægt að mynda bandalög innan ASÍ kæmi í ljós í kosningum á miðvikudag.

Þegar Ragnar greindi frá því að hann drægi framboðið til baka vísaði hann einnig til stöðuuppfærslu Halldóru Sveinsdóttur, formanns Bárunnar, þar sem hún gagnrýndi Ragnar, Sólveigu og Vilhjálm harðlega.

Í færslunni sagði Halldóra meðal annars að þingið væri haldið í skugga þess að fyrrverandi forseti ASÍ, Drífa Snædal, hefði hrökklast úr embætti vegna þeirrar fordæmalausu ofbeldismenningar sem grafið hefði um sig í hreyfingunni. Þá spurði hún hvort vænta mætti hópuppsagnar innan ASÍ ef þau þrjú næðu kjöri í embættin.

Mikil átök hafa átt sér stað á 45. þingi ASÍ sem stendur nú yfir og var dagskrá þingsins breytt fyrr í dag til að ræða ákveðin mál sem komið hafa upp. Meðal annars umrædda stöðuuppfærslu Halldóru.

Ólöf Helga Adolfsdóttir, ritari Eflingar, er því ein í framboði til forseta ASÍ. Þá tilkynntu þau Phoen­ix Jessica Ramos, fyrr­ver­andi vinnustaðaeft­ir­lits­full­trúi Efl­ing­ar, Trausti Jör­und­ar­son, formaður Sjó­manna­fé­lags Eyja­fjarðar og Gun­dega Jaun­lin­ina, fyrr­ver­andi formaður ASÍ-UNG, um framboð sín til varforseta ASÍ í morgun.

Framboðsfrestur er ekki enn runnin út svo ekki liggur fyrir hvort þau verða sjálfkjörin í embættin. Kosið verður í embættin á lokadegi þingsins, á morgun.

Uppfært:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert