Skannaði ódýr strikamerki í sjálfsafgreiðslu

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi var tilkynnt um þjófnað úr verslun í hverfi 200 í Kópavogi. Maður á sjálfsafgreiðslukassa var staðinn að því að skanna ódýr strikamerki í staðinn fyrir vörur sem hann var að kaupa.

Verslunin er með 46 mál þar sem þessi sami maður hefur notað þessa aðferð, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Bílvelta á Þingvallavegi

Tilkynnt var um bílveltu á Þingvallavegi í hverfi 271 í Mosfellsbæ á níunda tímanum í gærkvöldi. Bíllinn skemmdist en engin slys urðu á fólki.

Bifreið var stöðvuð í Árbænum um hálfsexleytið í gær. Ökumaðurinn er grunaður um ólöglega sölu áfengis. Hann viðurkenndi að hafa skömmu áður selt manni þrjá brúsa af áfengi.

mbl.is/Kristinn Magnússon

Skartgripum stolið

Upp úr klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í bílskúr í hverfi 108.  Tveir menn voru sagðir hafa brotið upp hurð, borið út muni og sett í bifreið sem var skammt undan.  Mennirnir voru farnir er lögregla kom á vettvang.

Tilkynnt var um innbrot og þjófnað klukkan hálfátta í gærkvöldi í íbúðarhúsnæði í sama hverfi. Búið var að fara inn og stela skartgripum og öðrum verðmætum.

Yfir á rauðu ljósi

Bifreið var stöðvuð laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi í miðbæ Reykjavíkur eftir að hafa verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Ökumaðurinn viðurkenndi brotið og var skýrsla rituð.

Um hálftólfleytið var bifreið stöðvuð i hverfi 104, einnig eftir að hafa verið ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi.  Ökumaðurinn reyndist vera sviptur ökuréttindum og játaði hann bæði brotin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert