Ekki hægt að útiloka svipaðan atburð aftur

Ummerki um flóðið sem féll í síðustu viku.
Ummerki um flóðið sem féll í síðustu viku. mbl.is/Guðlaugur Albertsson

Hlýindum er spáð um allt land á morgun og hvassri eða allhvassri sunnanátt. Búast má við ákafri rigningu á sunnan- og vestanverðu landinu. Þar sem ekki rignir gætu hlýindi og hnjúkaþeyr valdið hraðri snjóbráðnun. Við þessar aðstæður aukast líkur á votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum, að því er fram kemur í færslu Veðurstofu Íslands.

Álíka mikill snjór eða ívið meiri er í Geirseyrargili á Patreksfirði og var í síðustu viku þegar að krapaflóð féll. Flóð slettist þá út á götu og á nokkur hús og bíla. Svipaðar veðuraðstæður eru núna og er ekki hægt að útiloka svipaðan atburð aftur, segir í færslunni. 

Flóð féllu sama dag víða

Á fimmtudaginn í síðustu viku féllu einnig krapaflóð ofan Bíldudal, í Arnarfirði og Hnífsdal. Þá féll snjóflóð á Raknadalshlíð í Patreksfirði og jarðvegsskriða féll utan við Vík í Mýrdal.

Vegfarendur og ferðalangar eru hvattir til að sýna aðgæslu á stöðum þar sem grjót getur falllið og nærri vatnsfarvegum í brattlendi þar sem krapaspýjur geta borist niður.

íbúar nærri farvegum hvattir til að sýna aðgæslu

Þá eru íbúar í húsum nærri farvegum þar sem krapaflóð hafa fallið eru hvattir til þess að sýna aðgæslu og ekki dvelja að óþörfu nálægt farvegunum.

Á sunnudagskvöld mun kólna aftur og samhliða því ætti að draga úr hættu á votum snjóflóðum, krapaflóðum og skriðuföllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert