Tækifæri fyrir orkukerfið felast í gervigreind

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri
Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri mbl.is/Kristinn Magnússon

Halla Hrund Logadóttir, orkumálastjóri, sagði orkuskiptin aðkallandi, þar mætti ekki tíma missa og forgangraða þyrfti orku í þau verkefni.

Þetta kom fram í máli hennar á ársfundi Orkustofnunar í Hörpu í gær. Hún telur gervigreind geta nýst til að virkja orkukerfið enn betur og til þess að miðla þekkingu með skilvirkari hætti.

Iðnbylting okkar tíma

Í spjalli við mbl.is eftir fund sagði Halla að Ísland ætti að taka að sér forystuhlutverk í orkuskiptum. Ísland sé þegar búið með 85% af þeim, bara 15% séu eftir. Halla segir þetta iðnbyltingu okkar tíma. „Ef við getum þetta ekki, þá getur þetta að sjálfu sér enginn.“ Í góðu fordæmi Íslands felist gríðarmörg tækifæri fyrir hagkerfið allt, íslenskt hugvit í orkuskiptum verður útflutningsvara.

Í því samhengi nefnir hún gríðarlega mikla þekkingu á jarðhita sem er að finna á Íslandi. Íslenskt hugvit í fyrirtækinu Arctic Green Energy sé að reisa stærstu hitaveitu heims í Kína. Nýlega hafi líka verið boðin út sex ný jarðhitaverkefni í Króatíu sem sé afrakstur alþjóðasamstarf Orkustofnunar. Stór hluti orkunotkunar heimsins fari í það að hita og kæla húsnæði heimsins og jarðhiti getur leyst slík mál frá öðrum orkugjöfum.

Forgangsraða í orkuskiptin

Orkumálastjóri kom að því að nota þyrfti orkuna skynsamlega. „Við höfum ekki endalausa orku og orkuskiptin er orkukrefjandi vegferð. Það þarf að tryggja að ný framleiðsla fari í orkuskiptaverkefni. Auðvitað fer alltaf einhver hluti í vöxt heilbrigðs atvinnulífs en við þurfum að skapa hvata til þess að styðja við orkuskipti í sjávarútvegi, samgöngum á landi og svo flugið þegar þar að kemur.“

Gervigreindin hjálpi

Halla Hrund segir mikla möguleika felast í því að nýta gervigreind. „ChatGPT frá OpenAI hefur möguleika á að herma orkukerfin okkar, geta greint gríðarlegt magn af veðurfarsupplýsingum, upplýsingum um orkunotkunina, hver er að framleiða og frá hverju. Með því að taka inn endurnýjanlega orku frá sól og jarðhita, þá eru orkukerfin flóknari og við þurfum dálítið öfluga tækni til þess að besta kerfin. Þetta kemur líka inn á nýtnina, svona kerfi, gervigreind getur hjálpað okkur að ná fram hagræðingu, gera kerfin okkar enn áfallaþolnari.“

Ársfundur Orkustofnunar
Ársfundur Orkustofnunar mbl.is/Kristinn Magnússon
Ársfundur Orkustofnunar
Ársfundur Orkustofnunar mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert