Fjögur fengu 4,5 milljarða úr Úrvinnslusjóði

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Greitt endurgjald Úrvinnslusjóðs til 20 stærstu þjónustuaðila og sveitarfélaga námu um 7,8 milljörðum króna árin 2019 til 2022 og þar af fengu þrjú fyrirtæki greiddan á annan milljarð króna hvert fyrir þjónustuna. Þetta eru Íslenska gámafélagið ehf., Hringrás ehf. og Terra umhverfisþjónusta hf. Þá fékk Terra efnaeyðing hf. greiddan tæpan milljarð króna. Samtals námu greiðslur til þessara fyrirtækja um 4,5 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í yfirliti Úrvinnslusjóðs um álagningu og ráðstöfun úrvinnslugjalda yfir áðurnefnt tímabil.

Þar kemur einnig fram að álagning úrvinnslugjalda hafi alls numið tæpum 8,7 milljörðum króna og ber þar hæst álagning á pappa og pappírsumbúðir sem nam 1.651 milljón á tímabilinu, en endurgjald vegna sama vöruflokks, þ.e. greiðslur til þeirra aðila sem ábyrgð bera á endurvinnslu 1.474 milljónum. Þau fyrirtæki sem hér um ræðir eru Íslenska gámafélagið ehf. sem fékk rúmar 570 milljónir á téðu tímabili, Terra umhverfisþjónusta hf. sem fékk tæpar 544 milljónir og Sorpa bs. sem fékk rúmar 270 milljónir króna.

Svo sem kunnugt er þáðu íslensk endurvinnslufyrirtæki greiðslur frá Úrvinnslusjóði fyrir endurvinnslu á fernum sem reyndust síðan ekki vera endurunnar, heldur brenndar. Hefur Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og auðlindaráðherra lýst því yfir að krefja ætti þá aðila um endurgreiðslu þeirra fjármuna.

Álögð úrvinnslugjöld á raftæki voru um 1.510 milljónir króna árin 2019 til 2022, gjöld á plastumbúðir, þ.m.t. heyrúlluplast, námu 1.557 milljónum, gjöld á ökutæki voru rúmlega 1.279 milljónir og hjólbarða tæpar 1.228 milljónir. Endurgjald vegna sömu vöruflokka var um 5 milljarðar króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka