Dómur vegna kynferðisbrota árið 2017 óraskaður

Lands­rétt­ur staðfesti 14. september 2018 dóm Héraðsdóms Vesturlands yfir Skoko …
Lands­rétt­ur staðfesti 14. september 2018 dóm Héraðsdóms Vesturlands yfir Skoko fyr­ir að nauðga konu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eldin Skoko fékk tveggja og hálfs árs dóm fyrir kynferðisbrot árið 2017, bæði í héraði og Landsrétti. Málið var nýlega tekið upp aftur í Landsrétti að beiðni Skoko. Dæmt var í málinu að nýju í dag og var niðurstaðan sú sama.

Skoko kom að kon­u í ann­ar­legu ástandi liggj­andi í inn­keyrslu á Akranesi í júlí 2017 og fór með hana inn í dval­arstað sinn, klæddi hana út föt­un­um og hafði síðan við hana sam­ræði, að því er segir í dómnum.

Sko­ko hafi nýtt sér yf­ir­burðastöðu sína gagn­vart kon­unni sem ekki gat spornað gegn verknaðinum sök­um ölv­un­ar, mátt­leys­is og slævðrar meðvit­und­ar.

Lands­rétt­ur staðfesti 14. september 2018 dóm Héraðsdóms Vesturlands yfir Skoko fyr­ir að nauðga konunni. Hann var einnig dæmd­ur til að greiða kon­unni 1,5 millj­ón­ir króna í miska­bæt­ur.

Þegar afplánað dóm sinn

Skoko hefur þegar afplánað dóm sinn en hann óskaði eftir endurupptöku á málinu sökum þess að Landsréttur var ólöglega skipaður í málinu gegn honum í Landsrétti árið 2018.

Málið gegn Skoko var af sama meiði og Landsréttarmálið svokallaða en einn hinna fjögurra Lands­rétt­ar­dóm­ara sem dómur Mannréttindadómstóls Evrópu snerti í því máli dæmdi upprunalega í máli Skoko.

Sigríður Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra skipaði dómara ólöglega í Landsrétt árið 2017 en í febrúar árið 2021 kom fram á Alþingi að Landsréttarmálið hafi þegar kostað íslenska ríkið tæpar 141 millj­ón krónur.

Ríkið greiðir endurupptökuna

Skoko var ekki gerð sérstök refsing í endurupptökudómnum og dómurinn óraskaður eins og áður sagði. Allur kostnaður af rekstri endurupptökunnar greiðist úr ríkissjóði. 

„Þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar lögmanns, 1.298.800 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Gunnhildar Pétursdóttur lögmanns, 582.660 krónur,“ segir í dómi Landsréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert