Telur Þjóðarhöll eiga að vera í algjörum forgangi

Jón Arnór kynnti upphaf hönnunar- og framkvæmdarfasa nýrrar Þjóðarhallar á …
Jón Arnór kynnti upphaf hönnunar- og framkvæmdarfasa nýrrar Þjóðarhallar á blaðamannafundi í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það skiptir gríðarlega miklu máli að ný Þjóðarhöll fyrir innanhússíþróttir fái að rísa á Íslandi enda uppfyllir núverandi höll, Laugardalshöllin, ekki þær kröfur sem hún þarf að standast til að landsliðin geti leikið í henni. Útlit er fyrir að leika þurfi landsleiki erlendis.

Þetta segir Jón Arnór Stefánsson, formaður stjórnar Þjóðarhallar ehf. og fyrrverandi landsliðs- og atvinnumaður í Körfubolta, í samtali við mbl.is í kjölfar kynningarfundar um hönnunar- og framkvæmdarfasa nýrrar Þjóðarhallar sem haldinn var í Laugardalshöll í dag. 

Hugsað til framtíðar með nýrri Þjóðarhöll 

„Landsleikir eru orðnir það vinsælir að við getum fyllt miklu stærri höll heldur en Laugardalshöllina. Það er yfirleitt uppselt á þessa leiki og við verðum að geta spilað landsleiki á Íslandi,“ segir Jón Arnór spurður út í mikilvægi nýrrar hallar. 

Á fundinum var meðal annars greint frá því að gert væri ráð fyrir að ný þjóðarhöll tæki 8.600 manns í sæti. Spurður hvort verið sé að horfa til framtíðar með þeirri áætlun svarar Jón Arnór: 

„Miðað við höfðatölu hér á Íslandi þá er þetta stór höll og hún ætti að vera nægilega stór til framtíðar. Laugardalshöllin tekur eitthvað um 2.300 manns í sæti, það er nærri fjórföldun Laugardalshallarinnar, sem er gríðarleg fjölgun. Þannig að ég myndi segja að það sé verið að hugsa til framtíðar, já.“ 

Jón Arnór segir nýja Þjóðarhöll skipta gríðarlega miklu máli fyrir …
Jón Arnór segir nýja Þjóðarhöll skipta gríðarlega miklu máli fyrir íþróttasamfélagið í heild sinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Trú á að hægt verði að klára verkefnið á umræddum tíma 

Jafnframt var greint frá því að ráðgert væri að hefja byggingu hallarinnar á næsta eða þarnæsta ári og ljúka verkinu á árunum 2027 til 2028. 

Spurður hvort hann telji tímalínuna raunhæfa svarar Jón Arnór játandi. Hann áréttir þó að vitaskuld geti margt komið upp sem tefji tímalínuna. Þrátt fyrir það segir hann stjórn Þjóðarhallarinnar hafa trú á að hægt verði að klára verkefnið á umræddum tíma. 

Gott að finna stuðning ríkisstjórnarinnar

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra voru fulltrúar ríkisstjórnarinnar á fundinum. Í ræðum þeirra kom skýrt fram að um væri að ræða eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar auk þess sem mikil áhersla var lögð á mikilvægi verkefnisins. 

Það hlýtur að vera ánægjulegt að heyra að ríkisstjórnin ætli að standa þétt við bakið á verkefninu.

„Já, það er kannski stóra málið líka að tryggja svona verkefni fjármagn. Þannig að það var mjög sterkt að heyra ræðuna hennar Þórdísar í dag og ríkisstjórnin hefur gefið það út og kvittað undir að þetta skuli vera í forgangi,“ segir Jón Arnór og bætir við: 

„Það er brýn þörf fyrir fjármagn í heilmörg verkefni. Ég tel þó að þetta verkefni hafi setið á hakanum of lengi og að það eigi að vera í algjörum forgangi að þessi þjóðarhöll fái að rísa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert