Hálf deildin verður í banni

Pálmi Rafn Pálmason í baráttu.
Pálmi Rafn Pálmason í baráttu. mbl.is/Árni Sæberg

„Við höldum stiginu sem við vorum með þegar við komum en miðað við hvernig leikurinn spilast þá hefði ég viljað öll þrjú stigin,“  sagði Pálmi Rafn Pálmason, sem skoraði jöfnunarmark KR í Grindavík í dag en liðin skildu jöfn, 1:1, þegar fram fór þriðja umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu karla – Pepsi-deildinni.

„Mér fannst við betra liðið en Grindvíkingar eru þéttir og erfitt að brjóta þá niður, samt sem áður fannst mér hafa tækifæri til að vinna þennan leik.  Við höfum farið yfir hvernig Grindavík spilar og mér finnst við hafa lausnir á því en það er samt alltaf erfitt – þó maður hafi lausnina – þegar þeir eru margir inní eða í kringum markið sitt.  Grindvíkingar eru góðir fótboltamenn og það er ekkert nóg að vita hvernig á að gera hlutina, það þarf líka að ná því og fara leiðina sem á að fara og þá gera það almennilega.  Mér fannst við gera það oft á tíðum og fengum færi, svo mér finnst að við hefðum átt að vinna leikinn því við vorum bara smá óheppnir að vinna hann ekki.“

Pálmi Rafn fékk gult spjald fyrir mótmæli undir lokin, fannst á sér brotið og hafði líklega eitthvað til síns mál en að mati dómara leiksins hafði hann uppi smávægileg mótmæli sem þýðir gult spjald í dag.   „Ég styð þessar reglur, við getum séð það í handboltanum þegar menn fara útaf ef þeir halda ekki kjafti og það er því hraði í leiknum, fínt að losna við kjaftæðið í leiknum en það tekur tíma og verður að gefa okkur örlítinn tíma til að venjast þessu.  Mér fannst glórulaust að fá spjaldið, ein handarhreyfing, því það hlýtur að vera hægt að leyfa okkur að anda aðeins í svona tvær sekúndur.  Annars má búast við hálf deildin verði í banni í sumar en ég tek samt fram að ég styð þessar reglur,“ bætti Pálmi Rafn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert