Grindavík skellti sér á toppinn

Hákon Ingi Jónsson kemur Fylkismönnum yfir í Grindavík í kvöld.
Hákon Ingi Jónsson kemur Fylkismönnum yfir í Grindavík í kvöld. Ljósmynd/Víkurfréttir

Grindavík er komið í toppsæti Pepsi-deildar karla í fótbolta eftir 2:1-sigur á Fylki á heimavelli í dag. Fylkismenn komust yfir með eina marki fyrri hálfleiks en Björn Berg Bryde og varamaðurinn Williams Daniels skoruðu í síðari hálfleik og tryggðu Grindavík verðskuldaðan sigur.

Leikurinn byrjaði með látum því Hákon Ingi Jónsson skoraði strax á 5. mínútu er hann kláraði vel innan teigs eftir sending Ragnars Braga Sveinssonar. Grindvíkingar geta ekki verið sáttir við varnarleikinn í markinu því nokkrir gulklæddir Grindvíkingar voru í kringum Hákon.

Eftir markið róaðist leikurinn mjög og litu fá færi dagsins ljós það sem eftir lifði hálfleiksins. Albert Brynjar Ingason fékk eitt þeirra er hann komst í góða stöðu á meðan Kristijan Jajalo var framarlega í markinu. Albert vippaði yfir Jajalo en yfir markið í leiðinni. Grindavík reyndi hvað það gat að sækja, en þéttur varnarmúr Fylkis kom í veg fyrir að heimamenn næðu að skapa sér góð færi og var staðan því 1:0 í hálfleik.

Grindvíkingar byrjuðu síðari hálfleikinn með stórsókn og hverju færinu á fætur öðru. Pressan skilaði loksins marki á 63. mínútu er Aron Jóhannsson náði í vítaspyrnu eftir tæklingu Davíðs Þór Ásbjörnssonar. Þóroddur Hjaltalín dæmdi vítaspyrnu, þó Davíð virtist einungis hafa farið í boltann. Björn Berg Bryde fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Leikurinn róaðist eftir það og sóknir Grindavíkur urðu hættuminni. Heimamenn hættu hins vegar ekki því varamaðurinn William Daniels skoraði sigurmarkið á 89. mínútu. Hann tók skotið úr erfiðri stöðu utan af kanti og boltinn fór í gegnum pakka í vítateig Fylkis og í fjærhornið. Lítið gerðist í uppbótartímanum og Grindavík náði í verðskuldaðan sigur.

Grindavík 2:1 Fylkir opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert