„Ég er stoltur“

Kolbeinn brosir til Hara ljósmyndara eftir að hafa sent boltann …
Kolbeinn brosir til Hara ljósmyndara eftir að hafa sent boltann í netið hjá Andorra. mbl.is/Hari

Kolbeinn Sigþórsson jafnaði í kvöld markamet Eiðs Smára Guðjohnsens með A-landsliðinu í knattspyrnu þegar hann skoraði síðara mark Íslands í 2:0 sigrinum á Andorra og sitt 26. landsliðsmark. 

„Ég er stoltur af minni tölfræði með landsliðinu enda líður mér alltaf best þegar ég spila með landsliðinu. Vonandi get ég haldið áfram að hjálpa liðinu og bætt við þessa tölu. Fyrir utan metið þá er ég einnig ánægður með að hafa náð að komast aftur í landsliðið eftir þessi löngu meiðsli og fólk var ef til vill búið að afskrifa mig. Þess vegna er líka góð tilfinning að ná að sýna hvað ég get,“ sagði Kolbeinn við blaðamenn að leiknum loknum í kvöld. 

Í stöðunni 2:0 fékk Ísland vítaspyrnu sem ekki nýttst þegar Gomes markvörður Andorra varði frá Gylfa Þór Sigurðssyni. „Ég var svo sem ekki svekktur yfir því að fá ekki að taka vítið en ég hefði alveg viljað gera það. Kannski fæ ég að taka næsta víti. Við sjáum hvað gerist.“

Frakkland og Tyrkland gerðu 1:1 jafntefli sem minnkar mjög möguleika Íslands á að komast upp úr riðlinum. Frakkland komst yfir seint í leiknum og áhorfendur á Laugardalsvelli sungu þau skilaboð inn á völlinn. En Tyrkjum tókst að jafna. 

„Tilfinningin eftir leik var því súrsæt fyrir mig. Það var svekkjandi að heyra úrslitin frá París og sérstaklega fyrir mig því ég hafði jafnað markametið. Við heyrðum þegar áhorfendur létu vita að Frakkar hefðu komist yfir og tilfinningin var ljúf meðan á því stóð. Þá taldi maður að við værum með þetta í okkar höndum og gætum jafnað við Tyrkina með því að vinna þá í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert