Liverpool með tilboð í Shaqiri?

Xherdan Shaqiri er óvænt orðaður við Liverpool í dag.
Xherdan Shaqiri er óvænt orðaður við Liverpool í dag. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool íhugar nú að leggja fram tilboð Xherdan Shaqiri, sóknarmann Stoke City en það er Mirror sem greinir frá þessu í dag. Shaqiri féll með Stoke í ensku B-deildina í vor og er því falur fyrir 12 milljónir punda. Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool vill styrkja sóknarleik liðsins fyrir næstu leiktíð og sér Shaqiri sem góða varaskeifu fyrir þá Sadio Mané og Mohamed Salah.

Shaqiri greindi sjálfur frá því á dögunum að hann væri á förum frá félaginu en hann kom til Stoke frá Inter Milan árið 2015. Hann spilaði 36 leiki með Stoke í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð þar sem hann skoraði 8 mörk og lagði upp önnur 7. Shaqiri er í svissneska landsliðshópnum sem fer til Rússlands í sumar en hann hefur verið lykilmaður í landsliðinu, undanfarin ár og á að baki 69 landsleiki þar sem hann hefur skorað 20 mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert