Rashford stórt spurningarmerki

Marcus Rashford.
Marcus Rashford. AFP/Oli Scarff

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir mikinn vafa leika á því hvort Marcus Rashford, mesti markaskorari liðsins á tímabilinu, geti tekið þátt í leik liðsins gegn Wolverhampton Wanderers í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

„Raphael Varane er kominn aftur en það er óvissa með Rashford. Hann er að glíma við vandamál, meiðsli á fæti, þannig að hann er stórt spurningarmerki fyrir morgundaginn.

Það leikur mikill vafi á því hvort hann geti spilað, hann er stórt spurningarmerki. En við gleðjumst yfir því að Varane sé snúinn aftur,“ sagði ten Hag á blaðamannafundi í dag.

Varane hefur misst af undanförnum fimm deildarleikjum vegna meiðsla á fæti en verður klár í slaginn fyrir leik Man. United gegn Úlfunum, sem fer fram á Old Trafford og hefst klukkan 14 á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert