Frá harðstjóra til hvíslara

Tom Brady er genginn til liðs við Tampa Bay Buccaneers.
Tom Brady er genginn til liðs við Tampa Bay Buccaneers. AFP

Tom Brady sagði skilið við New England Patriots, liðið sem hann hefur leikið fyrir síðustu 20 árin, á dögunum og skrifaði undir tveggja ára samning við lánlaust lið Tampa Bay Buccaneers. Spennandi verður að sjá hinn 43 ára Brady í nýjum búningi en markmiðið hlýtur að vera að vinna titil og sanna sig sem þann besta í sögu NFL-deildarinnar fyrir fullt og allt.

Kom öllum á óvart

Í öðrum leik New England Patriots í NFL deildinni tímabilið 2001-02 var Drew Bledsoe leikstjórnandi liðsins tæklaður illa af varnarmanni New York Jets. Tæklingin leiddi til innvortis blæðinga sem kostuðu Bledsoe næstum lífið.

Til að leysa Bledsoe af í leikstjórnarstöðunni kom inn á lítt þekktur 24 ára leikstjórnandi frá Kaliforníu sem hafði verið valinn númer 199 í nýliðavalinu árið áður og setið allt tímabilið 2000-01 á bekknum. Tom Brady kom öllum á óvart og stóð sig svo vel með Patriots í leiknum og þeim næstu að þegar Bledsoe, sem hafði nokkrum mánuðum áður gert 10 ára samning við Patriots (já, 10 ára samning), náði sér af meiðslunum þurfti hann að bíta í það súra epli að dúsa á bekknum.

Undir stjórn Brady og þjálfarans Bill Belichick komu Patriots mörgum á óvart þetta tímabilið og enduðu á því að vinna Ofurskálarleikinn, úrslitaleik NFL-deildarinnar. Að vísu leysti Bledsoe Brady af þegar hann meiddist í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar í úrslitkeppninni en þurfti að verma bekkinn aftur þegar í Ofurskálarleikinn var komið. Patriots bættu við tveimur Ofurskálartitlum í safnið á næstu þremur árum og þegar uppi er staðið vann liðið sex titla með þá Brady og Belichick í brúnni og Brady var sjálfur valinn verðmætasti leikmaður Ofurskálarleiksins fjórum sinnum.

Andað köldu bak við tjöldin

Ég segi „þegar uppi er staðið“ ekki vegna þess að Brady hyggst leggja skóna á hilluna 42 ára að aldri. Því fer fjarri enda kauði hvergi nærri hættur, segist ætla að spila til 45 ára aldurs. Hann hefur hins vegar ákveðið að framlengja ekki samning sinn við Patriots og róa frekar á ný mið, nánar tiltekið í Flórída, og ganga til liðs við Tampa Bay Buccaneers. Brady skilur eftir sig ótrúlega arfleið í Foxborough, rétt utan Boston, þar sem Patriots hafa aðsetur. Þar vann hann, eins og áður sagði, sex meistaratitla, komst níu sinnum í Ofurskálarleikinn, var þrisvar valinn verðmætasti leikmaður deildarinnar, 14 sinnum valinn í störnuleik deildarinnar og svo mætti áfram telja.

Bill Belichick þjálfari New England Patriots og Tom Brady eiga …
Bill Belichick þjálfari New England Patriots og Tom Brady eiga ekki endilega skap saman. AFP

En hvers vegna að skilja við lið sem virðist alltaf komast í úrslitakeppnina og er þjálfað af manni sem er af mörgum talinn besti þjálfari sögunnar? Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör og ég ætla að telja á tveimur þeirra hér. Í fyrsta lagi hafa lengi verið erfiðleikar í samskiptum Brady og Belichick. Þó þeir beri eflaust ómælda virðingu fyrir hvor öðrum hafa ólíkir persónuleikar þeirra tekist á. Í fjölmiðlum vestanhafs var mikið talað um samband þeirra félaga þegar Jimmy Garoppolo, varaleikstjórnanda liðsins, var skipt yfir til San Francisco 49ers fyrir slikk haustið 2018. Átti eigandi liðsins, Robert Kraft, að hafa neytt Belichick, sem vanalega sér um leikmannamál sjálfur, til að skipta Garoppolo frá liðinu en Belichick hugðist gera hann að byrjunarliðsmanni á kostnað Brady áður en langt um væri liðið. Þar átti Brady að hafa átt hlut að máli við litla hrifningu Belichick.

Á síðustu vikum hefur Belichick síðan einbeitt sér að því að semja við aðra leikmenn en Brady og hafði ekki boðið honum samning áður en hann tilkynnti um brottför sína ef marka má gárunga vestanhafs.

Í öðru lagi er það arfleiðin. Enginn efast um ágæti Tom Brady sem leikstjórnanda og er hann af mörgum talinn sá besti í sögunni til að kasta egglaga boltanum. Hins vegar hefur alltaf hangið yfir Brady sú staðreynd að þjálfari hans er einnig sá besti í sögunni. Hefði Brady náð þessum ótrúlega árangri með annan þjálfara? Líklega ekki enda hefur ekkert lið náð sama árangri og Patriots hefur náð síðustu 20 árin og sigurhefðin og vinnusemin sem Belichick hefur náð að innstilla meðal leikmanna sinna er ótrúleg. Hins vegar má hið sama segja um Belichick. Hann hefur notið góðs af gríðarlegum hæfileikum Brady, bæði innan sem utan vallar á vegferð sinni að gera Patriots að stórveldi.

Hvað sem því líður þá er auðvelt að gera sér í hugarlund að Brady vilji grafa arfleið sína enn frekar í stein og vinna sér inn sjöunda meistarahringinn, nú með nýjan þjálfara, á nýjum stað og orðinn eins gamall og raun ber vitni. Næði hann að vinna Ofurskálina í sjöunda skiptið, kominn langt á fimmtugsaldur og enginn Belichick við hlið hans, yrði hann ótvírætt sá besti í sögunni og hægt að leggja þá umræðu alfarið til hliðar og taka hana helst aldrei upp aftur.

Sex sinnum sigursælli en nýja liðið

Gera verður ráð fyrir Brady ætli sér að vinna titil eða titla með nýja liðinu, Tampa Bay Bucs. En er það raunhæft? Liðið hefur ekki komist í úrslitakeppnina síðan tímabilið 2007-08 og ekki unnið leik í úrslitakeppni síðan liðið vann sinn fyrsta og eina Ofurskálartitil árið 2003. Í 44 ára sögu liðsins hefur það unnið fimm sinnum færri leiki í úrslitakeppni en Brady, 6 gegn 30, og aðeins 38 fleiri leiki í deildinni (267) en Brady sem byrjunarliðsmaður (219). Þá vann liðið 7 leiki af 16 á síðasta tímabili sem var þó næstbesti árangur liðsins frá tímabilinu 2012-13.

Ekki er því sama sigurhefð í Tampa og New England en það var einnig staðreyndin þegar Brady skokkaði inn á til að fylla í skarð Bledsoe; liðið hafði aldrei unnið Ofurskálina. Nýi þjálfarinn, Bruce Arians, er heldur enginn aukvisi og oft kallaður leikstjórnandahvíslarinn eftir að hafa unnið með mönnum á borð við Peyton Manning og Ben Rothlisberger. Þá er Arians málaður upp sem andstæða Bill Belichick. Hann er miklu léttari í lund en harðstjórinn Belichick, klæðist höttum og sólgleraugum á meðan hann reitir af sér brandara, eitthvað sem Belichick myndi ekki láta sér detta í hug að gera þó líf hans lægi við.

Margir telja þennan persónuleika eiga mun betur við Brady en liðsfélagar hans lýsa honum sem viðkunnalegasta náunga sem þeir hafa kynnst. Dæmi um þetta er að eina krafan sem Brady gerði þegar hann skrifaði undir hjá Bucs var ekki að vera númer tólf eins og hann er vanur, ekki að stjórna því hverjir kæmu til liðsins heldur að fá símanúmer allra nýju liðsfélaga sinna svo hann gæti haft samband við þá strax.

Hjá Bucks mun Brady hafa úr meiru að moða sóknarlega en síðustu árin en útherjarnir Mike Evans og Chris Godwin eru meðal þeirra bestu í NFL. Fráfarandi leikstjórnandi Bucs, Jameis Winston kastaði til að mynda fyrir flestum jördum í deildinni í fyrra (þó hann hafi einnig kastað oftast allra í hendur aðstæðinganna sem var ástæða þess að hann var látinn fara). Ljóst er þó að leikstíll liðsins mun breytast við komu Brady þar sem hann er ekki fær um að kasta jafnlangt niður völlinn og Winston.

Afar fróðlegt verður að sjá hvernig Brady og Bucs mun ganga á næsta tímabili (ef það fer yfir höfuð fram vegna kórónuveirufaraldursins). Brady virtist dala nokkuð á síðasta tímabili enda orðinn 42 ára (hann verður 43 ára þegar það næsta hefst). Hann á erfitt með að hreyfa sig í vasanum þegar varnarmenn andstæðinganna hópast að honum og virðist losa sig við boltann enn fyrr en áður til að lenda ekki í klóm þeirra. Brady er ekki meðal þeirra bestu í deildinni lengur en sérfræðingar eru þó flestir sammála um að kasthendin sé enn ein sú sterkasta. Því er spurning hvort Arians geti hvíslað góðum ráðum að Brady næstu mánuðina og jafnvel árin og þeir félagar unnið titil eða tvo saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert