Á Evrópumótið fyrst íslenskra kvenna

Aldís Kara Bergsdóttir er á leið á sitt fyrsta Evrópumót.
Aldís Kara Bergsdóttir er á leið á sitt fyrsta Evrópumót. Ljósmynd/Jóhanna Helga Þorkelsdóttir

Aldís Kara Bergsdóttir, Íslandsmeistari á listskautum, heldur af stað á Evrópumeistaramótið í greininni fyrst íslenskra kvenna á mánudaginn kemur en mótið fer fram í Tallinn í Eistlandi.

Aldís Kara hefur verið sigursæl undanfarin ár og hefur sett hvert metið af öðru bæði í unglingaflokki sem og í fullorðinsflokki.

Hún varð fyrst íslenskra skautara til að ná keppnisrétti á heimsmeistaramóti unglinga, sem haldið var í Tallinn í mars árið 2020, rétt áður en kórónuveirufaraldurinn skall á.

Síðan þá hefur hún flutt sig upp um flokk og keppir nú í hæsta flokki skautaíþróttarinnar og hefur stefnt að því að ná lágmörkum á stærstu mót greinarinnar á alþjóðavísu.

„Þetta er í fyrsta skiptið sem íslenskur skautari hefur uppfyllt keppniskröfur á mótið og verður spennandi að fylgjast með þátttöku hennar við þrjátíu og sex aðra skautara frá allri Evrópu, þar á meðal þríeyki frá Rússlandi sem er spáð efstu þremur sætunum á Ólympíuleikunum,“ segir í tilkynningu Skautasambands Íslands.

„Keppni í stutta prógramminu verður fimmtudaginn 13. janúar kl 11:15 að staðartíma. Þá kemur í ljós hvort Aldís Kara kemst áfram í frjálsa prógrammið þann 15. janúar en tuttugu og fjórir efstu komast áfram. Keppninni verður streymt beint á Youtube rás Alþjóðaskautasambandsins ISU,“ segir ennfremur í tilkynningu sambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert