„Gleymir aldrei þessari tilfinningu“

Hildur og Stefán þjálfari fallast í faðma þegar sigurinn var …
Hildur og Stefán þjálfari fallast í faðma þegar sigurinn var í höfn. mbl.is/Árni Sæberg

Hildur Þorgeirsdóttir var mjög ógnandi í skyttustöðunni hægra megin þegar Fram lagði Val að velli 26:22 í Safamýri í kvöld og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn annað árið í röð. 

Hildur skoraði 6 mörk og samtals fékk Fram 12 mörk úr opnum leik frá skyttunum, henni og Ragnheiði, gegn sterkri vörn Vals. „Í leikjunum í úrslitakeppninni hefur verið mismunandi hverjar skora mest hjá okkur. Mér finnst það ekki skipta mestu máli heldur að finna þann leikmann sem er opin. Anna Úrsúla er fyrrverandi fótboltamarkmaður og því er ekki auðvelt að skjóta fram hjá henni. Þær fara yfirleitt tvær í Karen og liggja niðri á línumanninum. Við erum með geggjaða línumenn og það tvo. Ekki eru allir svo heppnir að eiga tvo geggjaða línumenn. Ég er með Þóreyju við hliðina á mér í horninu sem er alltaf tilbúin að fá boltann og fyrir vikið opnast fyrir okkur Ragnheiði til að skjóta. Ragnheiður var mjög góð í dag og ég er ánægð með liðsheildina,“ sagði Hildur þegar mbl.is ræddi við hana í Safamýri.

Hildur var einnig í liði Fram sem varð Íslandsmeistari í fyrra. „Þetta er alltaf jafn æðislegt. Maður gleymir aldrei þessari tilfinningu og vill alltaf vinna aftur. Við misstum af deildameistaratitlinum sem við getum sjálfum okkur um kennt. Stefán (Arnarson þjálfari) kom okkur niður á jörðina í gær og minnti okkur á marga mikilvæga leiki sem við höfum tapað á ögurstundu og þar af leiðandi vorum við tilbúnar í þennan leik,“ sagði Hildur ennfremur. 

Hildur Þorgeirsdóttir skoraði 6 mörk í kvöld.
Hildur Þorgeirsdóttir skoraði 6 mörk í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert