Bitur út í Dag Sigurðsson

Dagur Sigurðsson.
Dagur Sigurðsson. AFP

Króatíski þjálfarinn Nenad Kljaic er enn bitur yfir því að Dagur Sigurðsson hafi fengið stöðu landsliðsþjálfara Króata, þrátt fyrir frábæran árangur Íslendingsins. 

Dagur er fyrst erlendi þjálfari króatíska landsliðsins en byrjun hans með liðinu var draumi líkast. Stýrði hann Króötum til sigurs í öllum þremur leikjum liðsins í undankeppni Ólympíuleikana í París í sumar, og tryggði liðinu á þá í leiðinni. 

Vann Dagur þar Þýskaland, Austurríki og Alsír en króatíska pressan hefur hrósað honum í hástert eftir leikina þrjá. 

Hefur litla trú á Degi

Er Dagur tók við króatíska landsliðinu sagði Kljaic að ráðning hans væri „dauðadómur“ fyrir þjálfara þarlendis. Stendur hann enn við þá skoðun í viðtali sem birtist í miðlinum Index á föstudaginn. 

„Ég stend við það sem ég hef sagt. Þrátt fyrir að fjölmiðlar geri Messías úr honum. Ég hef samt ekkert á móti Degi, svo við höfum það á hreinu. 

Ég velti fyrir mér hvernig okkar þjálfarar eiga að komast erlendis og ná árangri þar þegar við fáum erlendan þjálfara til að stýra landsliði okkar,“ sagði Kljaic. 

Fannst að hann ætti að taka við 

„Mér fannst að ég ætti skilið að taka við landsliðinu. En ég vissi jafnframt að dyrnar væru lokaðar. 

Hef ég trú á að Dagur vinni medalíu í París? Nei, ég held ekki. Ég þekki mjög vel hvað hann getur, og hvað hann getur ekki,“ bætti Króatinn við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert