Trump með forskot í sex af sjö lykilríkjum

Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti bætir við sig fylgi.
Donald Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseti bætir við sig fylgi. AFP/Nicholas Kamm

Fylgi Donalds Trump fyrrverandi Bandaríkjaforseta mælist meira en Joe Biden núverandi forseta samkvæmt nýlegri könnun Bloomberg-fréttaveitunnar. 

Fylgi Trump mælist samkvæmt könnuninni 49 prósent en fylgi Biden 43 prósent þegar svarendur voru beðnir um að velja aðeins milli þeirra tveggja.

Trump er einnig með forskot á Biden í sex af sjö lykilríkjum í aðdraganda forsetakosninganna.

Biden er með 2 prósentustiga forskot í Michigan en forsetinn mælist 1-10 prósentustigum á eftir Trump í Arizona, Georgia, Nevada, Norður-Karólínu, Pennsylvaníu og Wisconsin. 

Efnahagsmálin mikilvægust 

Efnahagsmálin virðast vera kjósendum efst í huga en meirihluti kjósenda í lykilríkjum gerir ráð fyrir versnandi efnahagsástandi næstu mánuði. Tæplega einn af hverjum fimm býst við að verðbólga muni lækka fyrir lok árs. 

Rúmlega þrír af hverjum fjórum þátttakendum telja að forsetinn beri ábyrgð á núverandi stöðu bandaríska hagkerfisins.

Nærri helmingur telur hann „bera mikla ábyrgð“ á efnahaginum. 

Biden með forskot í félagslegum málefnum 

Skoðanir á samfélagslegum álitaefnum, þá sérstaklega á rétti kvenna til þungunarrofs, virðist þó hafa styrkt stöðu Biden. 

Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telur meira en helmingur kjósenda í lykilríkjum að málefni þungunarrofs muni koma til með að skipta miklu máli þegar kemur að ákvörðun um hvern þeir muni kjósa. 

Þeim fjölgar á meðal kjósenda demókrata og sjálfstæðra sem segja málefnaflokkinn mjög mikilvægan í vali sínu. Hlutfall kjósenda repúblíkana sem eru á sama máli hefur haldist stöðugt. 

Þetta gefur vísbendingar um að málaflokkurinn sé í auknum forgangi fyrir kjósendur sem eru líklegir til að vera sömu skoðunar og Biden.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka