Norskur lögreglumaður dæmdur

Úr upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar í Kongsberg aðfaranótt 30. október 2022. …
Úr upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar í Kongsberg aðfaranótt 30. október 2022. Lögregluþjónn hefur nú hlotið 120 daga óskilorðsbundinn dóm fyrir meiri háttar líkamsárás og brot í opinberu starfi. Mynd/Úr öryggismyndavél

Lögregluþjónn í Kongsberg í Noregi hlaut á þriðjudaginn 120 daga óskilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir meiri háttar líkamsárás á plani bensínstöðvar þar í bænum í októberlok 2022.

Kom þá til harkalegra orðaskipta milli lögregluþjóna og hóps manna sem lyktaði með því að lögreglumenn veittust harkalega að Kevin Simensen, 26 ára gömlum manni í hópnum, og börðu hann með kylfum og hnúum. Lögreglan í Kongsberg greindi svo morgunvakt staðarblaðsins þar í bænum frá því að tveir menn hefðu verið kærðir þá um nóttina fyrir að veitast að lögregluþjónum en síðar kom upptaka öryggismyndavélar á bensínstöðinni fram og snerust vopnin þá í höndum lögreglunnar á staðnum.

Eftir að fyrst Dagbladet og í kjölfarið aðrir stærstu fjölmiðlar Noregs birtu upptökuna og fjölluðu um málið var lögreglumanninum sem hafði sig mest í frammi vikið tafarlaust frá störfum og gaf rannsóknardeild í innri málefnum lögreglu, Spesialenheten for politisaker, út ákæru á hendur honum fyrir að hafa farið offari í starfi og farið langt út fyrir starfssvið sitt með því ofbeldi sem hann beitti Simensen.

Lögmannafélagið með böggum hildar

Annar lögregluþjónn á vettvangi tók síma af félaga Simensens og eyddi upptöku af átökunum. Sætti sá einnig ákæru og hlaut sekt fyrir sína háttsemi en ekki var krafist fangelsisrefsingar yfir honum.

Komst Héraðsdómur Buskerud að þeirri niðurstöðu 7. júlí í fyrra að lögregluþjónninn hefði ekki farið út fyrir starfssvið sitt, öll hans valdbeiting hefði verið í samræmi við lög og reglur auk þess sem héraðsdómur vísaði bótakröfum fórnarlambsins frá dómi.

Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóra undraði ekki á sínum tíma að álit …
Benedicte Bjørnland ríkislögreglustjóra undraði ekki á sínum tíma að álit lögreglu hafi beðið hnekki eftir atburðinn í Kongsberg. Ljósmynd/Norska lögreglan

Vakti dómurinn mikinn úlfaþyt hjá Lögmannafélagi Noregs eftir uppkvaðningu og lét Marius Dietrichson, tals- og forsvarsmaður verjendahóps félagsins, þau orð falla í viðtali við málgagnið Advokatbladet í fyrrasumar að sýknudómur í héraði vekti áleitnar spurningar tengdar meginreglunni um réttarríkið.

Samhæfing ætti ekki að eiga sér stað

Taldi Dietrichson að ekki væri það einvörðungu valdbeiting lögreglumannsins, sem nú hefur hlotið dóm, sem vekti spurningar heldur einnig tilraunir annarra lögreglumanna á vettvangi til að hylma yfir með samstarfsmanni sínum og eyða gögnum um atburðarásina sem síðar kom svo skýrt fram á upptöku öryggismyndavélar bensínstöðvarinnar.

Undirstrikaði Dietrichson sérstaklega að full nauðsyn væri á að tryggt væri með kerfisbundnum hætti að lögreglan greindi frá og gripi inn í þegar hún sæi að samstarfsfólk bryti af sér í starfi. „Það sem þarna gerðist á ekki að geta gerst. Samhæfing framburða og skýrsluskrifa lögreglumanna á ekki að eiga sér stað. Skýrslur skal hver skrifa fyrir sig og þær eiga að vera réttar,“ sagði Dietrichson.

Áverkar Kevins Simensens eftir handtöku sem leiddist út í stórátök …
Áverkar Kevins Simensens eftir handtöku sem leiddist út í stórátök í októberlok 2022. Ljósmyndir/Úr einkasafni

Svo sem glöggt má sjá á upptökunni reyndu fjórir lögregluþjónar að handtaka Simensen á plani bensínstöðvarinnar aðfaranótt 31. október 2022. Sýnir upptakan glöggt þegar Simensen er sleginn þrettán sinnum með lögreglukylfu á fjórtán sekúndum auk þess sem hann er barinn fjölda hnefahögga og varnarúða dælt yfir hann.

Það var Lögmannsréttur Borgarþings sem kvað upp dóminn á þriðjudag og dæmdi lögreglumanninn til 120 daga óskilorðsbundins fangelsis, tvöfalt þyngri refsingar en Marit Oliver Storeng saksóknari hafði farið fram á. Klofnaði dómurinn í afstöðu sinni og vildu tveir dómarar af sjö sýkna ákærða en fimm dómarar töldu hann sekan um meiri háttar líkamsárás og brot í opinberu starfi.

Var honum einnig gert að greiða Simensen og félaga hans, sem síminn var tekinn af, bætur fyrir gjörðir sínar, samtals jafnvirði rúmlega 600.000 íslenskra króna.

Fjórir lögregluþjónar komu að handtöku Simsens þegar átökin stóðu sem …
Fjórir lögregluþjónar komu að handtöku Simsens þegar átökin stóðu sem hæst. Lögmannsréttur Borgarþings telur einn þeirra hafa farið langt út fyrir starfssvið sitt við handtökuna og hlaut sá 120 daga fangelsisdóm í vikunni. Skjáskot/Úr öryggismyndavél

Heidi Reisvang, verjandi ákærða, segir norska ríkisútvarpinu NRK að skjólstæðingur hennar sé mjög vonsvikinn og óttist að dómurinn muni setja fordæmi sem geri lögreglu erfiðara fyrir að rækja störf sín. Hafa þau skjólstæðingurinn þegar ákveðið að áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Unn Alma Skatvold, formaður Landssambands lögreglumanna í Noregi, Politiets Fellesforbund, segir að standist dómurinn fyrir Hæstarétti verði mikillar umræðu þörf um hvernig lögreglan þori að ganga til sinna starfa.

Olav Rønneberg, álitsgjafi NRK um afbrotamál, telur allar líkur á að Hæstiréttur Noregs taki málið fyrir þar sem mál af sama tagi hafi aldrei farið alla leið upp áfrýjunarkerfi norskra dómstóla.

NRK

Dagbladet 

VG

TV2

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert