Sterkt gengi krónunnar hefur veruleg áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja sem fara með vinnslu botnfisks hér á landi. Ferðaþjónustan ryður öðrum greinum frá sér og kjör sjómanna eru í frjálsu falli. Þetta segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri sjávarútvegsfyrirtækisins G.Run í Grundarfirði.
Fyrirtækið á og gerir út tvö skip, með um tíu manna áhöfn hvort, auk þess sem það starfrækir landvinnslu í firðinum þar sem að jafnaði starfa um 50 manns.
„Erlendis hefur verðið verið að lækka eða staðið í stað, þannig að við finnum fyrir verulegum tekjusamdrætti á sama tíma og mestallur innlendur kostnaður hefur hækkað,“ segir Guðmundur.
Fyrirtæki hætt eða dregið saman seglin
„Það eru að verða gífurleg ruðningsáhrif af þessum ævintýralega vexti ferðaþjónustunnar og gengisstyrkingu krónunnar samhliða honum, og loks þessum ruglvöxtum Seðlabankans sem enginn einasti landsmaður skilur sem ekki býr innan veggja bankans.“
Guðmundur segist hafa orðið vitni að dapurlegri þróun eftir að verkfalli sjómanna lauk í febrúar. Mörg smærri fyrirtæki á Reykjanesi og á höfuðborgarsvæðinu hafi ýmist ekki farið af stað aftur eftir verkfallið eða dregið segl sín verulega saman.
„Eini ljósi punkturinn er að þetta hefur gerst í kringum höfuðborgarsvæðið, þar sem hefur verið mikill uppgangur og atvinna næg. En þegar afleiðingarnar fara að dreifast víðar um landsbyggðina, eins og við sjáum núna, þá gæti þetta orðið erfitt í mörgum samfélögum. Afkoma sjómanna og útgerða er í frjálsu falli.“
Fyrirtækið á og gerir út tvö skip frá Grundarfirði.
mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson