Körpuðu um framtíð sjávarútvegs

Frambjóðendurnir sátu fyrir svörum í fundarsal Húss Atvinnulífsins í Borgartúni.
Frambjóðendurnir sátu fyrir svörum í fundarsal Húss Atvinnulífsins í Borgartúni. mbl.is/Árni Sæberg

Heitar umræður urðu þegar frambjóðendur níu flokka í komandi alþingiskosningum komu saman á opnum fundi til að ræða málefni sjávarútvegsins á fimmtudagskvöldið. UFSI, Félag ungs áhugafólks um sjávarútveg stóð fyrir fundinum, þangað sem hverjum flokki var boðið að senda einn fulltrúa úr sínum röðum.

Á síldveiðum.
Á síldveiðum. mbl.is/Helgi Bjarnason

Flokkur fólksins: „Nú er nóg komið“

Magnús Þór Hafsteinsson, oddviti Flokks fólksins í Norðvesturkjördæmi, reið fyrstur á vaðið og fullyrti að byggðir landsins hefðu ítrekað orðið fyrir skakkaföllum vegna fiskveiðistjórnunarkerfisins, þar sem nýtingarrétturinn hefði verið færður frá þeim.

„Nú verður ekki lengur gengið í því að höndla með fiskveiðiheimildir milli byggða. Menn hafa haft 25 ár fyrir það sem þeir kalla hagræðingu, og nú er nóg komið,“ sagði Magnús og bætti við að hann vildi ekki horfa upp á það meir, að byggðir verði fyrir skakkaföllum vegna þessa frjálsa framsals.

Benti hann á að Akurnesingar hefðu sett eggin sín í eina körfu, og síðan misst þá körfu í hendur HB Granda.

Stórefla eigi hafrannsóknir

„Sjávarútvegur á Akranesi heyrir nú til sagnfræðinnar,“ sagði Magnús. Sá blómlegi útgerðarbær sem hann hefði alist upp við væri ekki lengur til.

Tók hann fram að hann gleddist yfir velgengni sjávarútvegsfyrirtækja og nýsköpun í stoðgreinum sjávarútvegsins. „Ekki misskilja mig. En það sem ég harma, eru afleiðingar þessa kerfis fyrir byggðir landsins.“

Þá nefndi hann að makríllinn gæti vel horfið jafnskjótt og hann kom inn í lögsögu Íslands. Íslendingar veiddu þá alltof mikið af loðnu, sem ætti frekar að fá að deyja og breytast í fæðu fyrir þorskinn. Sagðist hann að lokum vilja stórefla hafrannsóknir á Íslandi.

Álsey VE landar síld á Krossanesi.
Álsey VE landar síld á Krossanesi. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Samfylkingin: „Ekki boðlegt“

Eva H. Baldursdóttir, sem skipar 3. sætið á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður, greip orðið og sagði flokk sinn hafa talað fyrir útboðsleiðinni svonefndu í talsverðan tíma.

„Ég hugsa að flestir þekki þá umræðu, þar erum við aðallega að beina athyglinni að auðlindarentunni, að nægilegt gjald komi til þjóðarinnar fyrir nýtingu auðlindarinnar. Það er okkar sýn og hefur verið alveg frá stofnun Samfylkingarinnar, að þetta sé eitthvað sem þurfi að laga.“

Sagði hún sértækt veiðigjald hafa verið sett á í tíð vinstristjórnarinnar árin 2009 til 2013, en fyrsta verk ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks hafi verið að lækka þetta gjald. Þannig hefði það verið að skila 12 til 13 milljörðum en skilaði nú fimm milljörðum samkvæmt fjárlögum 2017, en þó ekki bara vegna lækkunarinnar heldur líka vegna verri afkomu.

Verði fyrirmyndarríki á sviði umhverfismála

„Þetta er mjög einfalt, ef ríkið myndi leigja hús til afnota fyrir einhvern annan, er sanngjarnt að sá myndi greiða markaðsverð fyrir þá leigu.“

Bætti hún við að friður þyrfti að gilda um þetta og að hann væri ekki til staðar. „Núverandi fyrirkomulag er ekki boðlegt.“

Hvergi væri þó meiri framleiðni í atvinnugreinum hér á landi. „Það er enginn sem vill hrófla við því og þeirri sjálfbærni sem ríkir í sjávarútvegi.“

Súrnun sjávar og aukið magn plasts í sjónum væri þá áhyggjuefni. Sagði hún Samfylkinguna vilja að Ísland stefndi að því að vera fyrirmyndarríki á sviði umhverfismála.

Salinn fyllti ungt fólk með áhuga á málaflokknum og þeim …
Salinn fyllti ungt fólk með áhuga á málaflokknum og þeim áskorunum sem að honum steðja. mbl.is/Árni Sæberg

Píratar: „Skemmdarverk á byggðum landsins“

Gunnar Ingiberg Guðmundsson, sem skipar 2. sæti lista Pírata í Norðvesturkjördæmi, sagði Pírata vilja færa fiskinn af miðunum og yfir í byggðirnar með sem minnstum tilkostnaði, með því að minnka olíukostnað.

„Við þurfum að vera ábyrg í olíubrennslu,“ sagði hann og bætti við að stór skip útgerðanna brenndu mikilli olíu, á sama tíma og vinnslur í landi noti „hreina íslenska rafmagnið“.

Allur fiskur ætti þá að fara á markað. „Það er enginn pólitíkus sem getur kveðið á um verð fisksins,“ sagði Gunnar. Benti hann á að með fiskveiðistjórnunarkerfinu hefði verið unnið skemmdarverk á byggðum landsins.

„Það verður ekki tekið aftur með pennastriki yfir nótt.“

Á leið til hafnar.
Á leið til hafnar. mbl.is/RAX

Viðreisn: Þörf á meiri fyrirsjáanleika

Næstur tók til máls Gylfi Ólafsson, oddviti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi.

„Það sem sjávarútvegsfyrirtæki þurfa, á sama hátt og einstaklingarnir hér inni, er að vita hversu mikils virði krónan verður eftir eitt, tvö, þrjú eða fjögur ár,“ sagði Gylfi. Stöðugri gjaldmiðill myndi gera litlum sjávarútvegsfyrirtækjum kleift að taka sér lán á hagstæðari kjörum.

„Stóru sjávarútvegsfyrirtækin geta í krafti stærðar sinnar leitað á önnur mið fyrir lán. Það geta þau minni ekki,“ sagði Gylfi og bætti við að hann teldi þörf á meiri fyrirsjáanleika í greininni.

Lítur fiskeldi hýrum augum

„Sú aðferð sem er núna notuð til að ákvarða veiðigjöld er ósanngjörn,“ sagði hann. Rof væri á milli uppsjávartegunda og annarra tegunda. Þá væri tveggja ára töf frá þeim gögnum sem útreikningar greiðslna miða við, þar til greiða þurfi auðlindagjald í samræmi við sömu gögn.

„Við viljum styðja rannsóknir og að frábær árangur síðustu ára haldi áfram að vaxa og dafna. Slátrum ekki mjólkurkúnni með því að drepa átta ára gamla þorskinn, og förum að láta af því verða að byggja hér nýtt hafrannsóknaskip.“

Þá sagðist hann líta fiskeldi mjög hýrum augum. Leyfi til fiskeldis séu tengd sérstökum stöðum og því ekki hægt að færa þau á milli staða.

Smábátar að makrílveiðum.
Smábátar að makrílveiðum.

Sjálfstæðisflokkur: „Halda áfram á sömu leið“

Brynjar Níelsson, sem skipar 2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður, sagðist talsmaður kvótakerfisins og frjáls framsals. Mikilvægt væri að halda uppi sjálfbærum og arðbærum sjávarútvegi.

Sagðist hann muna hvernig sjávarútvegur hefði verið rekinn þegar hann var ungur maður, með eilífum gengisfellingum.

Bætti hann við að tryggja þyrfti byggðir landsins.

„Laga þarf kerfið því öðruvísi verður þetta ekki réttlátara. Við þurfum að halda áfram á sömu leið, og reyna að sníða agnúana af, en þetta verður aldrei fullkomlega réttlátt.“

Vel vakandi í hafrannsóknum

Þá sagðist hann telja að aldrei muni nást sátt um sjávarútveginn, og ekki heldur um upphæðir veiðigjalda.

„Víglínan færist og hún mun alltaf gera það á meðan það er hagnaður í greininni.“

Sagði hann að við núverandi fyrirkomulag sé hægt að halda áfram arðsemi og sjálfbærni í greininni þrátt fyrir áföll. Það verði þó aldrei hægt fái stjórnmálaflokkar á öndverðum meiði sínu framgengt.

„Ég vil að við séum vel vakandi í hafrannsóknum. Förum ekki fram úr okkur með ofveiði eða með því að gæta ekki að okkur í umhverfismálum.“

Margrét EA siglir út til veiða.
Margrét EA siglir út til veiða. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Björt framtíð: Byggðakvóti gróðrarstía spillingar

Valdimar Valdemarsson, sem skipar 4. sæti lista Bjartrar framtíðar í Suðvesturkjördæmi, tók þá til máls.

Sagði hann núverandi aflamarkskerfi hafa skilað miklu. Ekki hefði þó tekist að skapa sátt um greinina og nefndi hann að mannréttindanefnd SÞ hefði komist að því fyrir tíu árum að kerfið uppfyllti ekki ákvæði mannréttindalaga. Nefndin hefði fengið þau svör árið 2008 að ráðist yrði í endurskoðun kerfisins í náinni framtíð. Það hafi enn ekki gerst.

„Lög og reglur þurfa að vera á þann veg að hámarksarðsemi sé náð fyrir þjóðarbúið í heild. Við þurfum að skipta afurðunum með réttmætum hætti á milli þeirra sem eru í greininni og þjóðarinnar,“ sagði Valdimar og bætti við að kerfið þyrfti að vera einfalt og gagnsætt.

„Það er mikilvægt að hefjast handa, læra af reynslunni og vanda okkur.“

Nýta reynsluna til að þróa og endurskoða kerfið

Sagðist hann þá vilja afnema byggðakvótann með öllu, þar sem hann væri „“gróðrarstía mikillar spillingar.

„Við eigum að halda áfram að vera í forystu. Við erum með þrjátíu ára reynslu af þessu aflamarkskerfi, við eigum að nýta þá reynslu til að þróa það og endurskoða.“

Í aukinni sjálfvæðingu fælist áskorun sem taka þurfi alvarlega.

„Skipin eru að verða öflugri, færri í áhöfn, og sjálfvirkni að aukast í landi. Þetta geta orðið sársaukafullar breytingar ef ekki er vel á þessu tekið.“

Ólík sjónarmið bæði fundargesta og frambjóðenda fengu að flakka á …
Ólík sjónarmið bæði fundargesta og frambjóðenda fengu að flakka á fundinum. mbl.is/Árni Sæberg

Vinstri græn: Aflaheimildir verði innkallaðar

Kolbeinn Óttarsson Proppé, sem skipar 2. sæti lista Vinstri grænna í Reykjavíkurkjördæmi suður, sagði það grundvallaratriði að fiskurinn í sjónum væri eign þjóðarinnar. Búið væri að rífast um fiskveiðistjórnunarkerfið áratugum saman og augljóst að ná þurfi sátt.

Sagði hann VG-liða oft vera sakaða um munnræpu. Sjávarútvegsstefna Vinstri grænna væri hins vegar eins og verk eftir H.C. Andersen. Í grundvallaratriðum snúist hún um að innkalla aflaheimildir yfir nokkurn tíma, án þess að farið væri í neinar kollsteypur.

Einn þriðji í byggðafestukvóta

„Lögmál markaðarins eiga ekki að gilda þegar kemur að fiskveiðiheimildum,“ sagði Kolbeinn og bætti við að Vinstri græn vilji endurúthluta aflaheimildum á þrjá vegu.

Einn þriðji hluta færi í leigumarkað, til ákveðins árafjölda. Einn þriðji rynni þá í byggðafestukvóta, sem væri ekki það sama og sá byggðakvóti sem nú væri við lýði. Þriðji og síðasti hlutinn færi til útgerða, gegn hóflegu gjaldi, þar sem sjávarútvegurinn þyrfti að búa við ákveðinn fyrirsjáanleika.

„Við komum strandveiðunum á, árið 2009, sem leið til að opna á nýliðun í kerfinu. Ekki síst til að bregðast við áliti mannréttindanefndar SÞ,“ sagði Kolbeinn. Sjávarútvegsfyrirtæki þurfi þá að borga meira fyrir nýtingu auðlindarinnar en þau geri í dag.

Frá Bolungarvík.
Frá Bolungarvík. mbl.is/Sigurður Bogi

Miðflokkurinn: „Galin aðferð“ við útreikning veiðigjalda

Gunnar Bragi Sveinsson, oddviti Miðflokksins í Suðvesturkjördæmi, rifjaði upp tíð sína sem utanríkis- og síðar sjávarútvegsráðherra. Sagði hann það hafa verið algjör forréttindi að fá að kynna sjávarútveg á alþjóðavettvangi.

„Sjávarútvegur er skemmtilegasta atvinnugrein sem ég hef kynnst. Það er svo mikið að gerast. Hvar er mesta nýsköpun á Íslandi í dag? Hún er í kringum sjávarútveg.“

Benti hann á að 80 til 90% nýsköpunarinnar ætti sér stað á höfuðborgarsvæðinu, þrátt fyrir að veiðarnar væru að mestu úti á landi. „Þetta sýnir að landsbyggðin og höfuðborgarsvæðið eru að spila saman í að ná frábærum árangri í þessari grein.“

Gunnar sagði hættu á því að framlag til nýsköpunar skerðist ef hert verði á veiðigjöldunum. „Það gengur ekki að bjóða upp á einhvers konar ævintýri í sjávarútvegsstefnunni,“ bætti hann við og vísaði þar til ummæla Kolbeins.

Hlýnun sjávar fylgja áskoranir

„Á að greiða auðlindagjald? Það getur vel verið að við séum sammála um það. En af hverju aðeins sjávarútvegurinn, ættu ekki allir sem nýta auðlindir að gera það líka? Ef auðlindagjald á að vera þá á það að vera af öllum auðlindum.“ Bætti hann við að núverandi fyrirkomulag við útreikning veiðigjalda væri „galin aðferð“.

Spurður um helstu áskoranir í sjávarútvegi nefndi Gunnar hlýnun sjávar.

„Hvernig ætlum við að elta þorskinn norður, ef sjórinn heldur áfram að hlýna og hann fer þangað? Hvernig ætlum við að sækja þá fiska sem nú eru innan lögsögunnar en verða það kannski ekki í framtíðinni?“ spurði hann og sagði að þarna þyrfti að fást við erfiðar spurningar í hafrétti. Á erlendri grundu væru einnig áskoranir á mörkuðum, þar sem víða væri verið að framleiða sífellt betri fiskafurðir í samkeppni við íslensk fyrirtæki.

Bátar við bryggju á Siglufirði.
Bátar við bryggju á Siglufirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Framsókn: „Arðsemi var engin

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, sagði að Ísland árið 1984 hefði verið statt á ekki ósvipuðum stað og margar þjóðir væru enn á í dag.

„Ósjálfbærar veiðar, arðsemi var engin, og flestir á hausnum,“ sagði hann skýrum orðum. „Þess vegna var sett á kvótakerfi, og sú leið hefur tekist frábærlega. Menn fóru stundum út fyrir þau mörk sem sett höfðu verið niður. En á síðustu árum hefur okkur tekist það.“

Sigurður sagði arðsemi greinarinnar vera orðna mikla. „Svo mikil, að við spyrjum hvað sjávarútvegurinn geti greitt mikið. Annars staðar er spurt, hvað getum við greitt mikið með sjávarútvegi?“

Skynsamari aðgerðir í byggðamálum

Atvinnugreinin væri undirstaða velsældar þjóðarinnar. Fjöregg hennar. „Við megum ekki tala um það eins og við getum hent því á loft og ekki hugsað um hvernig eigi að grípa það.“

Sagði hann Skota og Norðmenn, svo dæmi væru tekin, horfa til Íslands við stefnumörkun í sínum sjávarútvegi.

„En það hefur alltaf verið einn vandi, frá því kerfið var sett á. Það er sá félagslegi. Samfélagslegi vandinn,“ sagði hann og lýsti vilja síns flokks til að leysa þann vanda. „Við þurfum að haga aðgerðum í byggðamálum á skynsamari hátt en við höfum gert.“

Bætti hann við að setja ætti auðlindaákvæði í stjórnarskrá.

„Ég skal svo vera fyrstur til að viðurkenna að það er ekki búið að finna hagkvæmasta fyrirkomulagið á veiðigjöldum. En gleymum því ekki að það eru nánast þúsund kennitölur sem borga veiðigjald. Þar af eru ekki nema tuttugu, tuttugu og fimm fyrirtæki sem eru öflug og stöndug. Stærstu fyrirtækin bæði vilja og geta greitt meira. En öll hin fyrirtækin fara á hausinn.“

Hafið fullt af ónýttum auðlindum

Sigurður benti enn fremur á að sjávarútvegur væri eina greinin á Íslandi sem þyldi alþjóðlegan samanburð hvað varði arðsemi og framleiðni.

„En áskorunin framundan er fjórða iðnbyltingin og sjálfvæðingin sem henni fylgir. Hún er mjög langt komin í sjávarútvegi en hún mun halda áfram. Rómantíkin um að trillukarlinn fari út á haf og veiði, hún getur nú horfið ef trillukarlinn er ekki lengur um borð.“

Tækifærin liggi fremur á hinum vængnum, í tæknifyrirtækjum og hinu svonefnda bláa lífhagkerfi, „sem við erum rétt að byrja að sjá tærnar af,“ sagði hann og ávarpaði unga gesti fundarins.

Hafið er fullt af auðlindum, ekki aðeins fiski heldur alls kyns hlutum. Sem þið eigið eftir að uppgötva og nýta, og tryggja með því hagsæld komandi kynslóða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 29.12.24 664,59 kr/kg
Þorskur, slægður 29.12.24 761,12 kr/kg
Ýsa, óslægð 29.12.24 494,69 kr/kg
Ýsa, slægð 29.12.24 138,70 kr/kg
Ufsi, óslægður 29.12.24 274,16 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 29.12.24 412,01 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.12.24 Kristján HF 100 Lína
Keila 324 kg
Karfi 172 kg
Þorskur 113 kg
Ýsa 96 kg
Samtals 705 kg
28.12.24 Indriði Kristins BA 751 Lína
Þorskur 173 kg
Ýsa 99 kg
Samtals 272 kg
27.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 58 kg
Steinbítur 34 kg
Sandkoli 9 kg
Samtals 101 kg
27.12.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 1.146 kg
Ýsa 316 kg
Steinbítur 61 kg
Sandkoli 23 kg
Þykkvalúra 20 kg
Karfi 1 kg
Samtals 1.567 kg

Skoða allar landanir »

Fleira áhugavert
Afurð Dags. Meðalverð
Þorskur, óslægður 29.12.24 664,59 kr/kg
Þorskur, slægður 29.12.24 761,12 kr/kg
Ýsa, óslægð 29.12.24 494,69 kr/kg
Ýsa, slægð 29.12.24 138,70 kr/kg
Ufsi, óslægður 29.12.24 274,16 kr/kg
Ufsi, slægður 22.12.24 62,00 kr/kg
Undirmálsufsi, slægður 18.12.24 42,00 kr/kg
Djúpkarfi 8.11.24 179,00 kr/kg
Gullkarfi 29.12.24 412,01 kr/kg
Litli karfi 22.10.24 15,00 kr/kg

Fleiri tegundir »

28.12.24 Kristján HF 100 Lína
Keila 324 kg
Karfi 172 kg
Þorskur 113 kg
Ýsa 96 kg
Samtals 705 kg
28.12.24 Indriði Kristins BA 751 Lína
Þorskur 173 kg
Ýsa 99 kg
Samtals 272 kg
27.12.24 Ásdís ÍS 2 Dragnót
Skarkoli 58 kg
Steinbítur 34 kg
Sandkoli 9 kg
Samtals 101 kg
27.12.24 Þorlákur ÍS 15 Dragnót
Skarkoli 1.146 kg
Ýsa 316 kg
Steinbítur 61 kg
Sandkoli 23 kg
Þykkvalúra 20 kg
Karfi 1 kg
Samtals 1.567 kg

Skoða allar landanir »

Loka