„Við ætlum að reyna að aðlagast þessum aðstæðum,“ segir Pétur Sigurðsson, framkvæmdastjóri útgerðarinnar Sólrúnar ehf. á Árskógssandi í Eyjafirði, í samtali við mbl.is. Fjölskyldufyrirtækið hefur verið að takast við bátsbruna sem varð í nóvember í fyrra samhliða hækkandi veiðigjöldum. Hann segir ákvörðun Alþingis um veiðigjöld ekki traustvekjandi, en er bjartsýnn þegar litið er til framtíð byggðarinnar.
Þann tólfta nóvember 2017 kviknaði eldur í einum af tveimur bátum fyrirtækisins. Pétur segist seint gleyma þeim degi er honum var tilkynnt að kviknað hefði í Sólrúnu EA. „Þetta gerðist tólfta nóvember. Ég gleymi því aldrei, en það er ekki eingöngu vegna brunans. Þetta er afmælisdagur konunnar og ekki gott að gleyma honum,“ segir hann.
Pétur var staddur á Ólafsfirði þegar honum er tilkynnt að eldur væri í bátnum Sólrúnu EA sem lá við bryggju á Árskógssandi. „Við fórum strax af stað og þegar við mættum var allt slökkvilið á staðnum að reyna að slökkva eldinn,“ segir hann. Sólrún EA var 27 tonna stálbátur og að sögn Péturs varð skömmu eftir brunann ljóst að hann yrði ekki notaður aftur.
Samkvæmt umfjöllun Aflafrétta frá atvikinu kemur fram að slökkvilið Dalvíkur hafi verið kallað út og var fengin aðstoð frá slökkviliðinu á Akureyri. Þá segir að aðstæður hafi verið erfiðar.
Pétur segir að það hafi kviknað í út frá rafmagni og að ekkert manntjón hafi orðið vegna brunans, enda engin um borð þegar kviknaði í.
„Á þessum tíma vorum við að gera út tvo báta en þessi bátur [Sólrún EA] var með betri nýtingu á veturna á meðan hinn hafi nýst betur á haustin. Þetta olli 50% tekjuskerðingu fyrir fyrirtækið og á sama tíma voru veiðigjöldin að hækka,“ segir Pétur.
Samkvæmt framkvæmdastjóranum var reynt að koma áhöfninni í önnur störf, en vegna aðstæðna var ákveðið að kaupa nýjan bát og nýta allar veiðiheimildir fyrirtækisins á þeim báti í stað þeirra tveggja sem áður voru nýttir, en segja þurfti upp þremur úr áhöfninni.
Pétur segir nýja bátinn vera 12 ára gamlan og að hann hafi verið gerður upp á Siglufirði. Báturinn sem ber sama heiti og sá sem brann, Sólrún, kom til Árskógssands fyrir viku og var tekið vel á móti honum að sögn hans.
„Ég er langt frá því að vera bjartsýnn,“ segir Pétur spurður um framtíðarhorfurnar. Hann bendir á að nú sé verið að leggja mikla vinnu í að aðlagast aðstæðum, en veiðigjöld eru orðin þriðjungur af almennum rekstrarkostnaði fyrirtækisins. „Ég veit ekki til annarra fyrirtækja [utan sjávarútvegs] sem nýta sér auðlindir til lands eða sjávar sem búa við slíkt rekstrarumhverfi,“ staðhæfir hann.
Þó staða smærri fyrirtækja í sjávarútvegi sé erfið, segir Pétur að stefnt sé að því að halda fjölskyldufyrirtækinu gangandi. Hann bendir á að bara í Eyjafirði og nærliggjandi svæðum hafi verið þrjátíu til fjörtíu smærri útgerðir fyrir fáeinum árum, nú séu þau um tíu og enn færri sem eiga veiðiheimildir.
„Það viðurkenna allir stjórnmálamenn að veiðigjöldin séu of íþyngjandi fyrir smærri útgerðir, en svo taka menn samt svona ákvarðanir eins og rétt fyrir þinglok þar sem okkur er bara gert að blæða í sex mánuði til viðbótar. Þetta er ekki traustvekjandi.“
Hann segist velta því fyrir sér hvort það sé stefna stjórnvalda að útgerðir af þeirri stærð sem Sólrún ehf. er verði ekki lengur til.
Á Árskógssandi búa um 120 einstaklingar og segist Pétur ekki hafa áhyggjur af byggðinni þrátt fyrir að færri starfa nú við útgerðina en á árum áður. Hann telur hinsvegar að bjart sé yfir byggðinni þar sem plássið er heldur miðsvæðis í Eyjafirði og getur fólk sótt vinnu til nærliggjandi byggða, ásamt því að atvinnutækifærin á Árskógssandi hafi orðið fjölbreyttari.
„Við erum komin með tvo stóra vinnustaði fyrir unga fólkið, brugghúsið og svo bjórböðin auðvitað,“ segir Pétur, en Bruggsmiðjan kaldi heldur til á staðnum ásamt Bjórböðunum.
Blaðamaður spyr hver þróun íbúafjöldans hafi verið. „Ég og konan mín byggðum okkar hús hér 1990, svo var byggt eitt hús hér 2005 og eitt 2017 sem er ný flutt inn í, þannig að það hefur ekki mikið breyst, en nú ætlar verktaki að byggja hér 6 íbúðir.“ Pétur segir enga ástæðu til þess að hafa áhyggjur þar sem góður gangur er í atvinnumálum á Dalvík og á Akureyri. „Svo hefur fólk flutt á Árskógssand í leit að hagstæðu húsnæðisverði,“ bætir Pétur við.