Þegar Musso jeppi er steindauður getur orsök þess verið ónýtt geymasamband, ónýtur rafgeymir eða bein útleiðsla.
Þegar Musso jeppi er steindauður getur orsök þess verið ónýtt geymasamband, ónýtur rafgeymir eða bein útleiðsla. — Morgunblaðið/Þorkell
Opel Astra í rugli Spurt: Á í vandræðum með gangtruflun í Opel Astra 1.4 1997 með Multec Cfi innsprautun. Fann ekkert um svona kerfi í pistlunum þínum á Vefsíðu Leós.

Opel Astra í rugli

Spurt: Á í vandræðum með gangtruflun í Opel Astra 1.4 1997 með Multec Cfi innsprautun. Fann ekkert um svona kerfi í pistlunum þínum á Vefsíðu Leós. Vélin gengur ekki lausagang, drepur á sér, heldur ekki stöðugum snúningi nema gjöfin sé stigin í sífellu. Það eina sem fær vélina til að ganga eðlilega er að klemma saman sogslönguna til MAP-skynjarans, þ.e. sé krafttöng á slöngunni og vélinni haldið í 2-3 þús. snúningum þá gengur hún eðlilega og hnökralaust. Eftir að hafa gengið lausagang smátíma byrjar hún að hökta, bilunarljósið kviknar og hún stöðvast nema gefið sé inn og vélinni haldið á hærri snúningi, þá slokknar bilunarljósið aftur. Ég finn engan sogleka. Hvað á maður að gera í svona stöðu?

Svar: Prófaðu vélina með bensíngeyminn opinn. Breyti það einhverju getur loftunarrofinn á bensíngeyminum verið óvirkur. Þrífðu inngjafarkverkina og spjaldið með spíra og tannbursta. Á þessari vél er enginn loftflæðiskynjari né lofthitaskynjari í barkanum að inngjafarkverkinni. Hins vegar er MAP-skynjari tengdur soggreininni og hann og súrefnisskynjarinn (1 leiðsla) gætu verið ónýtir. MAP-skynjarann færðu á partasölu en Vaka eða BJB-þjónustan gætu átt súrefnisskynjara. Annað sem borgar sig að kanna er hvort spíssinn í inngjafarkverkinni sé örugglega að skila því magni sem vélin þarf af eldsneyti. Rafspólan sem opnar hann getur verið slöpp. Þú gætir fengið inngjafarkverk með spíss og spólu á partasölu.

Renault Megane sem mengar og eyðir

Spurt: Ég er með Renault Megane 1600, 16 ventla árgerð 2006 sem eyðir talsvert meiru en mér finnst eðlilegt. Í árlegri skoðun fyrir nokkru var skráð athugasemd vegna mengunar (CO og HC of hátt). Bíllinn er ekinn 38 þús. km. Það hefur ekkert verið gert við vélina annað en það sem gert er á smurstöð, þ.e. endurnýjun smurolíu og svo framvegis. Bilunarljósið hefur alltaf slokknað eftir gangsetningu. Nú þarf greinilega að gera eitthvað meira. Hvað ráðleggur þú?

Svar: Eyðslan og mengunin sem mælist bendir til þess að endurnýja þurfi kertin. Um leið þyrfti að skoða þéttingarnar (O-hringi) sem eru á spönginni sem heldur kertahulsunum saman – þær vilja gefa sig og þá kemst vatn niður í kertabrunnana og veldur ójöfnum neista. Um leið myndi maður endurnýja bensínsíuna og bæta ísvara (isoprópanól) í bensínið, t.d. hálfri 125 ml brúsa. Mig grunar að þetta myndi lagfæra ganginn og minnka eyðsluna og mengunina í útblæstrinum þannig að hún yrði viðunandi.

,,Dauður“ Musso

Spurt: Ég á Musso árgerð 1999. Hann er með 2,9 lítra dísilvél með túrbínu. Ég drap á bílnum fyrir utan hús hjá mér í hádeginu og ætlaði svo af stað aftur hálftíma seinna en þá er bílinn steindauður og neitar að fara í gang. Ekkert heyrðist þegar ég sneri lyklinum í svissnum og engin ljós kviknuðu í mælaborðinu og engin ökuljós. Hvað í ósköpunum getur verið að?

Svar: Ónýtt geymasamband, ónýtur rafgeymir eða bein útleiðsla í gegnum alternator. Skoðaðu geymasamböndin. Sé ekkert óeðlilegt við þau myndi maður aftengja mínuspólinn og fá straum með startköplum frá öðrum bíl, á plúspólinn á geyminum og jarðsamband á leiðsluna, sem þú losaðir af. Kvikni þá ljós og gangsetja má vélina er rafgeymirinn ónýtur eða alternatorinn bilaður.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)