Peugeot 206 hafa staðið sig ágætlega sé vel um þá hugsað en varahlutir hafa löngum þótt afar dýrir sem þýðir að endursöluvirði er lágt.
Peugeot 206 hafa staðið sig ágætlega sé vel um þá hugsað en varahlutir hafa löngum þótt afar dýrir sem þýðir að endursöluvirði er lágt. — Morgunblaðið/Ásdís
Mercedes-Benz 914: Rafkerfisbilun Spurt: Ég er í vanda með M-Benz 914-vörubíl '93. Dauft hleðsluljós lýsir þegar hann er í gangi en hleður samt. Þetta byrjaði eftir að ég hafði notaði starttæki til gangsetningar.

Mercedes-Benz 914: Rafkerfisbilun

Spurt: Ég er í vanda með M-Benz 914-vörubíl '93. Dauft hleðsluljós lýsir þegar hann er í gangi en hleður samt. Þetta byrjaði eftir að ég hafði notaði starttæki til gangsetningar. Þá neita tvö viðvörunarljós í mælaborðinu að slokkna þegar vélin gengur, annars vegar ljósið sem sýnir að pallurinn sé uppi og hins vegar ljósið sem sýnir að húsinu þurfi að læsa niðri. Búið er að yfirfara alternator hjá fagmönnum og mun hann í lagi. Sú viðgerð breytti engu nema fjárhagnum (30 þús. kr.). Í öryggjaboxinu er ferkantað stykki, merkt D+. Í því heyrast stundum smellir. Hvað er að?

Svar: Þetta mun vera algengt í þessari gerð Benz-vörubíla og hefur áreiðanlega ekkert að gera með utanaðfengna aðstoð við gangsetningu. Stykkið í öryggjaboxinu er yfirspennuvörn. Smellirnir koma þegar skammhlaup verður í kaplinum frá alternator (missir kraftinn). Ástæðan er samleiðni milli leiðslna á ákveðnum stað í kaplinum. Rektu kapalinn frá alternator að vélarfestingunni og áfram yfir í grindina. Á þeim hluta er sláttur á kaplinum sem jagar smám saman sundur einangrun leiðslnanna innan í kaplinum. Opnaðu þennan hluta kapalsins og þá mun væntanlega blasa við skemmd einangrun sem þarf að laga og verja með ídragi.

Daewoo 1600: Truflanir

Spurt: Ég er með Daewoo Lanos 1600 '99. Mikil eyðsla, gangtruflanir og ójafn lausagangur hafa verið um nokkurn tíma og ekkert breyst við ísvara. Kóðalestur sýndi „oxy sensor voltage.“ Hvað þýðir það?

Svar: Súrefnisskynjarinn er óvirkur. Hann er í pústgreininni fremst á vélinni. Frá honum liggur ein leiðsla í tengi á móts við háspennukeflin. Athugaðu hvort þessi leiðsla sé tengd og heil. Fáist súrefnisskynjarinn ekki í umboðinu færðu hann hjá N1 (Borg-Warner universal (220 OS700) og kostar 3.867 kr. með vsk. Gamli skynjarinn getur verið gróinn fastur og þurft að glóðhita hann. Þú þarft því aðstoð verkstæðis við skiptin. Bílhagi ehf. er m.a. sérhæft í þjónustu við Daewoo og SsangYong.

Peugeot 206: Dularfull hljóð

Spurt: Ég á Peugeot 206 árgerð '99. Í akstri og snúningsmælir er á milli 2000-2500 þá heyrist mjög skrýtið hljóð – eins og frá vatnsrennsli í vélarrýminu eða undir mælaborðinu í 2-4 sek. Stundum hef ég fundið sérkennilega hitalykt í og af bílnum og hef þurft að bæta á kælikerfið reglulega. Vatnsgutlið heyrist næstum alltaf í akstri en hitalyktin kemur bara stundum. Ekki virðist vera samband á milli lyktar og þess hvort kælivökva vanti á kerfið. Hvað er réttast að gera í þessu máli? Hvernig hafa svona bílar reynst?

Svar: Fáðu verkstæði til að kanna hvort heddpakkning sé farin að leka; gutlið getur stafað af því að flýtur út úr yfirfallskúti og þá myndast oft pollur undir bílnum í stæði. Skoðaðu teppið á gólfinu undir mælaborðinu. Sé það blautt eða bleyta undir því eru líkur á að hitald miðstöðvarinnar sé lekt (ónýtt – þolir ekki aukinn þrýsting). Heddpakkning, vatnskassi og hitald miðstöðvar gefa sig vegna þess að kælivökvinn hefur ekki verið endurnýjaður á 3ja ára fresti samkvæmt fyrirmælum í handbók flestra bíla, – ekki frekar en bremsuvökvinn á 3-4ra ára fresti (rakamettun veldur pyttatæringu í afturhjóladælum) . Kælivökvi súrnar með aldri og tærir þá þéttifleti heddsins, sem er úr áli, þar til pakkningin lekur bensínblönduðu lofti úr sílindra og út í vatnsgang. Peugeot 206 hafa staðið sig ágætlega sé vel um þá hugsað en varahlutir hafa löngum þótt dýrir og endursöluvirði því lágt.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur

leoemm@simnet.is

Jafn þrýstingur er mikilvægur

Jafn þrýstingur í dekkjum og víxlun þeirra á milli fram- og afturhjóla sömu megin með reglulegu millibili eykur endingu dekkja um 30-50%. Sé bíllinn framdrifinn, þar með taldir jeppar og jepplingar með sjálfvirkt fjórhjóladrif, ætti að víxla dekkjum eftir hverja 8 þús. km en 10 þús. km sé bíllinn afturdrifinn. Flest dekk eru slöngulaus. Hafa skyldi fyrir reglu þegar setja á ný dekk á felgur að endurnýja jafnframt ventlana í felgunum: Gamlir, óþéttir ventlar eru algeng orsök þess að loft lekur úr dekkjum sem þá slitna mun fyrr en ella.