Hraðamælirinn er rafeindabúnaður sem fær boð frá sérstökum sendi á aftarlega á sjálfskiptingunni.
Hraðamælirinn er rafeindabúnaður sem fær boð frá sérstökum sendi á aftarlega á sjálfskiptingunni. — Morgunblaðið/Ernir
Terracan: Ójafn lausagangur Spurt: Ég á Hyundai Terracan árg. '06 Diesel. Þegar ég stöðva bílinn og læt hann ganga lausagang þá verður gangurinn ójafn, eins og hann flökti upp og niður.

Terracan: Ójafn lausagangur

Spurt: Ég á Hyundai Terracan árg. '06 Diesel. Þegar ég stöðva bílinn og læt hann ganga lausagang þá verður gangurinn ójafn, eins og hann flökti upp og niður. Á verkstæði var mér sagt að hugsanlega gæti verið um stíflaðan spíss að ræða. Ég hef sett sérstakt efni í eldsneytið sem á að hreinsa en án árangurs. Þetta kemur einungis fram í lausagangi en ekki í akstri. Verð ég að láta endurnýja spíssana eða er ef til vill einhver önnur lausn vænlegri?

Svar: Hugsanleg orsök er bilaður þrýstingsjafnari á bakrennsli forðagreinarinnar (RPCV = Rail Pressure Control Valve) en í þessum loka er kúla sem á það til að festast en þá dregur niður í vélinni – kúlan losnar aftur þegar þú eykur inngjöfina. Það er yfirleitt hægt að hreinsa þennan loka þannig að kúlan leiki laus. Þetta getur líka verið vegna lélegra rafspíssa. Framtak/Blossi í Garðabæ gæti átt þá til en þú mátt gera ráð fyrir að þeir séu ekki gefnir. Prófaðu að láta athuga þennan loka fyrst. Á þessari 4ra sílindra dieselvél er innsprautun frá forðagrein (Common rail) en ekki olíuverk.

Chevrolet Blazer: Sjálfskipting biluð

Spurt: Erum í vandræðum með Blazer-jeppa S-10 af árg. '95. Hraðamælirinn hagar sér undarlega og skiptingin tekur ekki 1. gír nema þegar mælirinn „dettur“ inn. Eftir það er skiptingin eðlileg þar til næstu dyntir hefjast. Veist þú hvað gæti valdið þessu og gæti þetta verið ávísun á mikla og dýra viðgerð?

Svar: Hraðamælirinn er rafeindabúnaður sem fær boð frá sérstökum sendi á aftarlega á sjálfskiptingunni. Sendirinn stýrir hraðamælingunni og um leið hraðastigum í sjálfskiptingunni. Að öllum líkindum er þessi sendir sambandslaus eða bilaður. Sendinn færðu sennilega hjá Jeppasmiðjunni við Selfoss (eða þeir panta hann fyrir þig) og færð hann settan í hjá Bifreiðastillingu á Smiðjuvegi í Kópavogi (Pétur Oddgeirsson). Þetta á ekki að vera neitt stórmál en gefur samt tilefni til að láta athuga vökvann á skiptingunni.

Nissan Patrol: Ljósafestingar

Spurt: Veistu hvar ég fæ festingar fyrir aukaljós á Patrol? Ég er að leita að einföldum festingum en ekki þessum stóru grindum sem þekja hálfan bílinn og kosta upp undir 160 þús. kr. Ennfremur leita ég að ökuljósum fyrir H3-perur (halogen), meðalstórum, líkt og Hella 1000 var? Mér virðist sem allt sé orðið svo tröllvaxið í dag. Bláar eða hvítar perur? Í síðustu viku sá ég olíuleka út frá vinstra liðhúsi. Daginn eftir fór ég með bílinn á smurstöð og var sagt að þarna væri farin pakkning fyrir innan liðhúsið og hana þyrfti að endurnýja en ég þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur þar sem margir lítrar af smurolíu væru á drifinu. Engu að síður er ég búinn að panta tíma hjá bílvirkja. Sá telur að endurnýja þurfi spindillegur sem fáist einungis hjá umboðinu. Bíllinn minn er árg. '07, ekinn 70 þ. km og að öðru leyti í mjög góðu lagi. Ég hef fylgst með skrifum þínum um kælivökvaskipti. Hvar fæst kælivökvi á Patrol, annars staðar en í umboðinu?

Svar: Þú gætir ef til vill notað festingar fyrir vinnuljós. Mig minnir að ég hafi séð þau hjá Poulsen. Þeir eiga jafnframt flestar gerðir af ljósastæðum og perum. Poulsen getur átt eða pantað fyrir þig spindillegurnar, einnig er Kistufell á Tangarhöfðanum að færa sig upp á skaftið í slithlutum á hagstæðu verði, m.a. í Patrol. Poulsen eiga mismunandi gerðir af kælivökva (og Halvoline-smurolíu, sem er í sama gæðaflokki og Mobile One) en á verði sem þolir dagsljós. Það er góð pólitík að bregðast tafarlaust við olíuleka, margar alvarlegar bilanir byrja með olíusmiti.

Ábending

Xenon-ökuljós geta komið manni í bobba

Blá ljós/hvít ljós: Kosturinn við bláu ljósin (xenon) er að þau lýsa miklu betur en hvít (halogen). Ókosturinn er að xenon-perur innihalda einungis gas en ekki glóðarvír. Halogen-ökuljós hitna og bræða af sér snjó. Það gera Xenon-ökuljós ekki því í þeim er einungis xenon-gas en ekki glóðarvír.

Leó M. Jónsson véltæknifræðingur leoemm@simnet.is (Ath. Bréf geta verið stytt. Eldri spurningar og ítarlegri svör eru birt á www.leoemm.com)