Flugfreyja gefur sex bestu ferðaráðin

Ljósmynd/Colourbox

Góð ferðaráð geta gert ferðalögin auðveldari, einfaldari og ánægjulegri. Því er ekki fjarri lagi að hlusta vel þegar flugfreyjur deila ferðaráðum, enda hafa þær mikla reynslu úr háloftunum og eru sérfræðingar í því að ferðast.

Nýverið deildi flugfreyja með 10 ára reynslu sínum bestu ferðaráðum með lesendum Insider

1. Haltu þér vakandi fram á kvöld á nýju tímabelti

„Að komast í gegnum fyrsta daginn án þess að sofna hjálpar mér alltaf að aðlagast nýju tímabelti. Það tryggir líka besta mögulega nætursvefninn og minnkar flugþreytu,“ útskýrir flugfreyjan. 

2. Slepptu innrituðu töskunni

„Ég kýs að ferðast án innritaðrar tösku svo ég geti forðast það að bíða í löngum röðum. Það gerir mér líka kleift að hafa eigur mínar með mér allan tímann.“

Ljósmynd/Unsplash/Yousef Alfuhigi

3. Ef þú ert með innritaða tösku, fjárfestu í staðsetningarbúnaði

„Ég vildi óska þess að staðsetningarbúnaður eins og Apple AirTag hefði verið til þegar ég var flugfreyja. Það er auðvelt að stinga þeim inn í ferðatöskuna þína til að hjálpa þér að finna töskur sem eru á röngum stað,“ segir flugfreyjan.

4. Settu skó í öryggishólfið á hótelinu til að muna eftir verðmætunum

„Þegar þú setur dýrmætustu eigur þínar í öryggishólf hótelsins skaltu setja einn skó þar líka – helst þann skó sem þú ætlar að nota daginn sem þú ferð af hótelinu,“ útskýrir hún.

5. Taktu lítinn gufuslétti með þér

Það eru ekki straujárn á öllum hótelum, en til að sleppa við að borga fyrir að láta strauja fötin þín mælir flugfreyjan með að fólk taki ferðagufuslétti með sér.

6. Sæktu þýðingarforrit í símann þinn

„Þýðingarforrit hafa reynst mér vel í ferðum til staða þar sem enska er ekki almennt töluð. Jafnvel þótt þýðingin sé ekki fullkomin hjálpar forritið þér að koma því sem þú vilt segja á framfæri,“ segir flugfreyjan.

Ljósmynd/Pexels/Daria Obymaha
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert