Stressuð að ferðast ein í fyrsta sinn

Tinna Margrét var valin Fjallkona Garðabæjar í fyrrasumar.
Tinna Margrét var valin Fjallkona Garðabæjar í fyrrasumar. Ljósmynd/Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir

Fjöllistakonan og hæfileikabúntið, Tinna Margrét Hrafnkelsdóttir, hefur afrekað ýmislegt á sínum 19 árum. Hún er útskrifuð af leiklistarbraut Fjölbrautaskólans í Garðabæ, lauk framhaldsprófi í klassískum söng í maí og er ein þeirra er standa að skipulagningu listahátíðar í Garðabæ. 

Mun fagna ástinni 

Sumarið verður bjart og líflegt hjá þessari ungu og skapandi sál en hún heldur til Barcelona til þess að vera viðstödd brúðkaup hjá vinafólki sínu. „Ég verð þar í tíu daga og ferðast ein. Mig hefur alltaf langað að prófa að vera ein í útlöndum. Ég er smá stressuð fyrir ferðinni en sömuleiðis sjúklega spennt,“ segir Tinna Margrét. „Ég ætla að nýta tækifærið og skoða Barcelona og upplifa nýja hluti.“

Tinna Margrét ætlar einnig að fagna ástinni á Íslandi í sumar en móðir hennar og stjúpfaðir ætla einnig að gifta sig í sumar. „Seinna í sumar verður brúðkaup hjá mömmu og stjúppabba. Það verður algjört æði og við erum á fullu að gera allt klárt fyrir það,“ segir Tinna Margrét spennt. 

Í tveimur störfum

Leik– og söngkonan mun hafa í nógu að snúast í sumar. „Ég verð í tveimur vinnum í sumar. Ég verð sölufulltrúi hjá Artasan og einnig skipuleggjandi listahátíðarinnar Rökkvan, en það er í gegnum Skapandi sumarstörf hjá Garðabæ. 

Svo langar mig bara að njóta mín og upplifa allt það sem sumarið hefur upp á að bjóða. Þetta er svona allt sem ég veit en ég virðist alltaf finna mér ný og skapandi verkefni,“ segir Tinna Margrét að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert