Finnar bjóða upp á ókeypis hamingjunámskeið

Í sjö ár í röð hefur Finnland verið hamingjusamasta land …
Í sjö ár í röð hefur Finnland verið hamingjusamasta land í heimi samkvæmt World Happiness Report. Samsett mynd

Í síðustu viku var árlegur listi yfir hamingjusömustu lönd í heimi, World Happiness Report, gefinn út af Sameinuðu þjóðunum. Finnland hélt toppsæti listans og var valið hamingjusamasta land heims sjöunda árið í röð. 

Á síðasta ári héldu Finnar í fyrsta sinn námskeið sem þeir kalla „Masterclass of Happiness“, en þá voru tíu heppnir ferðamenn sem fengu tækifæri til að ferðast til landsins og fá kennslu í því hvernig eigi að uppgötva eigin hamingju. Þá var námskeiðið haldið á Kuru Resort á finnska Lakeland-svæðinu og stóð yfir í fjóra daga. 

Halda námskeiðið í höfuðborginni

Í ár verður námskeiðið haldið aftur en þó með aðeins öðruvísi sniði. Nokkrum heppnum ferðamönnum verður boðið til höfuðborgarinnar Helsinki til að læra hamingjutrix frá svokölluðum „Helsinki Happiness Hackers“ sem munu meðal annars kenna hvað gerir íbúa höfuðborgar hamingjusamasta lands heims svona hamingjusama. Þá verður einnig farið yfir fjögur lykilþemu finnskrar hamingju: náttúra og lífsstíll, heilsa og jafnvægi, hönnun og hversdagsleikinn og matur og vellíðan. 

Hinir svokölluðu „hamingjuhakkarar“ sem eru í forsvari námskeiðsins eru meðal annars hin sjötuga fyrrverandi sundkona og íþróttafréttakona Lena Salmi, líffræðingurinn og rithöfundurinn Adela Pajunen og matargerðarmaðurinn Luka Balac sem er á bak við virta veitingastaði á borð við Nolla, Elm og Nolita. 

Námskeiðið mun standa yfir í fimm daga, frá 9. júní til 14. júní næstkomandi, en til að sækja um þarf að taka þátt í samfélagsmiðlaáskorun og fylla út umsóknareyðublað fyrir fimmtudaginn 4. apríl næstkomandi. Nánari upplýsingar um námskeiðið og umsóknina má finna hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert