Svona kennir þú barninu þínu fjölmiðlalæsi

Unsplash

Það getur verið flókið og ruglingslegt að læra hvernig á að greina ýmiss konar miðla, sérstaklega fyrir börn. Það er þó vel þess virði að kenna börnum hvernig á að vera gagnrýninn neytandi fjölmiðla. Jafnvel þótt barnið sé á leikskólaaldri getur þú byrjað að leggja grunninn að fjölmiðlalæsi þess.

Hér eru nokkur ráð um hvernig á að kenna jafnvel yngstu krökkunum að vera gagnrýnir fjölmiðlaneytendur.

Byrjaðu þegar barnið er ungt

Flestir gera ráð fyrir að tíminn til að byrja að kenna fjölmiðlalæsi sé í þegar börnin eru hálfnuð með grunnskólagönguna. Flestir sérfræðingar gefa hins vegar til kynna að foreldrar ættu að byrja mun fyrr en það, sérstaklega í ljósi þess að börn verða sífellt yngri þegar þau verða fyrir fjölmiðlum í fyrsta sinn.

Best er að byrja á grunnatriðum. Eitthvað jafn einfalt og að benda á muninn á raunveruleika og fantasíu getur byggt grunn að læsi í framtíðinni. Með ungum börnum geta foreldrar útskýrt að fólkið í auglýsingum sé að þykjast, likt og barnið gerir þegar það leikur sér í hlutverkaleik. Þó að það gæti tekið þau smá tíma að átta sig á þessu hugtaki þá hjálpar það börnunum að læra að ekki er allt sem þau sjá í fjölmiðlum sönn endurspeglun raunveruleikans.

Þegar krakkarnir eldast geta þau jafnvel farið að átta sig á því að það sem þau sjá á samfélagsmiðlum er bara hápunktur í lífi einhvers. Færslurnar endurspegla ekki nákvæmlega þær hæðir og lægðir sem fólk upplifir frá degi til dags.

Leitaðu að augnablikum til að kenna

Vertu á varðbergi fyrir hlutum í þínu daglega lífi sem hægt er að nota til að opna samtal við barnið þitt um fjölmiðla. Til dæmis ef þú sérð merki um rangar upplýsingar í frétt eða færslu á samfélagsmiðlum, skuluð þið ræða það. Eða ef þú sérð einhvern fara með fleipur í Youtube-myndbandi án nokkurra staðreynda til að styðja sitt mál, skaltu rannsaka það með barninu þínu til að sjá hvað þið getið lært.

Fáðu barnið til að hugsa um þá staðreynd að fyrirsagnir geta verið blekkjandi og að þær séu stundum skrifaðar til að fá fólk til að smella á upplýsingarnar. Það sem meira er, hjálpaðu þeim að venjast því að lesa heila grein eða færslu áður en því er deilt á netinu.

Það er mikilvægt að börn læri hvernig á að nota fjölmiðla með heilbrigðum hætti. Hluti af því er að vera meðvituð um hvað þau birta og hvers vegna. Ræddu um hvað það gæti þýtt að búa til færslu eða deila grein, svo að börnin þín læri að skoða það sem þau gera á netinu frá mismunandi sjónarhornum.

Notaðu fjölmiðlana með þeim

Næstum hvert einasta foreldri gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að setjast niður með börnunum sínum og lesa bók saman. Þú talar um myndirnar, hljóðar orðin og gerir athugasemdir við söguna. Það sama ætti að gerast með aðrar tegundir miðla, sérstaklega stafræna miðla.

Í stað þess að rétta þeim bara spjaldtölvuna eða snjallsímann þinn, skaltu setjast niður með þeim og tala um hvað þau eru að gera og hvað þau sjá. Spyrðu spurninga um hvað þeim finnst eða hvernig sérstakir hlutir láta þeim líða. Þú getur jafnvel beðið þau um að kenna þér hvernig á að spila nýja uppáhaldstölvuleikinn sinn eða beðið þau um að útskýra hvað sé að gerast í myndbandinu sem barnið horfir á.

Of oft grípa foreldrar til þess að setja reglur og leiðbeiningar um skjátíma án þess að hugsa í raun um hvað börnin þeirra sjá eða gera þegar sá skjátími gefst. Taktu þátt í fjölmiðlunum með og það mun koma þér á óvart hvað þú getur lært um barnið þitt.

Sýndu hvernig á að finna heiðarlegar upplýsingar

Þegar börnin þín verða eldri skaltu hjálpa þeim að bera kennsl á hvernig áreiðanleg frétt lítur út. Með öðrum orðum, virtir blaðamenn munu oft deila báðum hliðum málsins og veita heimildir fyrir upplýsingum sínum. Þar að auki skaltu reyna að kenna þeim hvar á að finna heiðarlegar og virtar upplýsingaveitur og hvernig finna má gæðaefni, sérstaklega í ljósi þess að svo mikið af upplýsingum finnast á netinu.

Þú getur líka kynnt þau fyrir fjölmiðlum sem bjóða upp á vandaða blaðamennsku og skuldbinda sig til þess að birta staðreyndir. Reyndu að forðast yfirlýsingar eins og að ekki sé hægt að treysta fjölmiðlum lengur. Það finnast áreiðanlegir fjölmiðlar, það gæti bara þurft samstillt átak til að finna þær.

Kenndu þeim að efast um hluti

Þú kennir ekki barninu þínu að vera gagnrýninn fjölmiðlaneytandi á einni nóttu. Þess í stað er þetta samtal sem þú átt reglulega við börnin. Oft byrja þessi samtöl á opnum spurningum sem fá börnin til að hugsa um fjölmiðlana sem þau neyta. Til dæmis gætir þú spurt unglinginn þinn hver hann telji að ástæðan sé á bak við að höfundur skrifaði ákveðna grein eða bjó til ákveðið myndband. Þú gætir líka spurt hverjir hann telji að geti haft gagn af greininni eða myndbandinu.

Þú gætir jafnvel spurt hvort barnið telji eitthvað vera trúverðugt og hvernig það myndi fara að því að rannsaka það til að komast að því. Spurningar sem þessar fá barnið til að staldra við og hugsa um fjölmiðlana sem það neytir.

Vertu góð fyrirmynd

Börn læra mikið um fjölmiðlalæsi af því að fylgjast með foreldrum sínum. Sýndu þeim að þér þyki vænt um og hefur áhuga á að finna staðreyndarupplýsingar. Þú getur líka sýnt þeim hvað það þýðir að efast um hlut án þess að sýna óvirðingu eða verða þreytt á fréttum.

Sýndu eftir bestu getu að til séu áreiðanlegar upplýsingar. Bjóddu barninu að kanna viðfangsefni með þér eða rannsaka eitthvað sem þú efast um. Sestu niður og skoðaðu virtar upplýsingaveitur með barninu þínu á netinu. Sýndu barninu hvernig á að rannsaka eitthvað með því að bera kennsl á hvaða heimildum það getur treyst og hverjar það eigi að hunsa.

Verywell Family

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert