Hversu mikið vatn ættir þú að drekka á meðgöngu?

Ljósmynd/Unsplash

Vatnsdrykkja er mikilvæg fyrir alla, en hún er hins vegar sérstaklega mikilvæg fyrir ófrískar konur. Vatnsdrykkja styður ekki einungis við heilbrigði móðurinnar heldur einnig við þroska barnsins. En hversu mikið vatn ættu ófrískar konur að drekka og hvers vegna er vatn svona mikilvægt á meðgöngunni?

Á dögunum birtist góð samantekt á vef Parents þar sem farið er yfir öll helstu atriði sem skipta máli þegar kemur að vatnsdrykkju ófrískra. 

Líkami okkar er um 60% vatn og því fylgir fjöldi ávinninga að drekka nóg af vatni. Það getur hjálpað við að draga úr bólgum, minnkar hættuna á þvagfærasýkingu, styður við meltingarveginn og húðina.

Á meðgöngunni er vatnsdrykkja hins vegar sérstaklega mikilvæg þar sem hún styður við vöxt, þroska og efnaskiptavirkni barnsins. Hún hjálpar einnig við meltinguna, styður blóðrás barnsins, kemur jafnvægi á legvatnið, hjálpar við frásog vatnsleysanlegra vítamína og stjórnar líkamshita svo eitthvað sé nefnt. 

Það eru ýmsar áhættur sem fylgja því að drekka ekki nóg af vatni á meðgöngu, en ófrískar konur gætu fundið fyrir ýmsum óþægilegum einkennum eins og sljóleika, svima, höfuðverk og ótímabærum samdrætti ef þær huga ekki að nægri vatnsdrykkju yfir daginn.

Þá aukast einnig líkur á þvagfærasýkingu eða sársaukafullri hægðatregðu, en rannsóknir hafa einnig bent á að ofþornun á meðgöngu geti haft áhrif á þyngd og lengd barnsins við fæðingu, sem og höfuð- og brjóstummál þess.

En hversu mikið vatn ættu ófrískar konur að drekka?

Algengt er að konur þurfti að drekka meira vatn á meðgöngunni en þær voru vanar að gera áður, enda margt sem gerist í líkamanum á meðgöngunni sem skapar aukna eftirspurn. 

„Þegar þú ert ófrísk eykst vökvaþörfin þín. Núverandi ráðlegging fyrir barnshafandi einstaklinga eru tvo til þrjá lítra af vatni á dag, en þú þarft meira ef það er heitt úti eða ef þú hefur verið að æfa,“ segir Chitra Akilwsearan, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir í samtali við Parents. 

Mælt er með að ófrískar konur séu alltaf með vatnsbrúsa á sér og drekki vatn reglulega yfir daginn. Það þykir góð þumalputtaregla að fylgjast með þvagliti í gegnum daginn. Ef þvagið er ljóst er vatnsdrykkjan á góðu róli, en ef það fer að verða dekkra þarf að auka vatnsdrykkju strax. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert