Nær ómögulegt að komast að hjá geðlækni

Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna.
Vilhjálmur Hjálmarsson, formaður ADHD samtakanna.

Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD samtakanna segir stöðuna á biðlistum í ADHD greiningu barna og fullorðinna vera afar slæma um þessar mundir og furðar sig á nýlegum takmörkunum á aðgengi að greiningu á meðan biðlistar lengjast út í eitt. 

Eins og er getur bið hjá Geðheilsumiðstöð barna hæglega verið 12-24 mánuðir ef ekki lengur og 12 mánuðir ef leitað er til einkastofu. Vilhjálmur segir að á undanförnum árum hafi biðlistinn tvöfaldast á hverju ári og telji nú um 1.700 börn. 

„Ekki bætti úr skák þegar Geðheilsumiðstöð barna tilkynnti á vordögum að draga ætti úr aðgengi að greiningum, ekki síst á fyrstum árum grunnskóla. Þess í stað eigi að leggja áherslu á snemmbært inngrip, t.d í skólakerfinu, í anda nýrra „farsældarlaga barna“ sem nýlega voru sett. Hér skýtur þó skökku við þar sem frá upphafi var viðurkennt að það tæki að minnsta kosti fimm ár að byggja upp nýja þjónustu og eftirfylgd sem lögin kveða á um,“ segir Vilhjálmur.

„Hér er eitthvað undarlegt á ferðinni sem, fyrir utan skort á fjármagni, hefur reynst erfitt að festa fingur á. Jafnvel skortir upplýsingar um hver afköst Geðheilsumiðstöðvarinnar eru varðandi þau börn sem þó komast að,“ bætir hann við. 

Segir stöðu fullorðinna lítið skárri

Hvað greiningu fullorðinna varðar segir Vilhjálmur stöðuna lítið skárri. „Lengi hefur blasað við að endurnýjun innan geðlæknastéttarinnar er of hæg. Eitthvað er þó að birta hér til, en sérnám í geðlæknum tekur mörg ár og enn langt í að jafnvægi komist á. Fram undir 2013 var ferlið nær eingöngu í höndum sjálfstætt starfandi sálfræðinga og geðlækna, fyrir utan einhvern hluta sem fékk þjónustu á geðdeild Landspítalans,“ segir Vilhjálmur. 

Hann segir að árið 2013 hafi stefnan verið að láta nýtt ADHD teymi Landspítalans sjá að mestu um greiningarferlið, en vegna skorts á fjármagni fyrstu tvö árin hafi teymið nærri lognast út af.

„Úr því var loks bætt, en þó undirfjármagnað. Fyrir vikið lengdust biðlistar út í eitt. Loks þegar ákveðið var að setja á fót nýtt teymi sem Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðisins rekur fyrir allt landið var sem rofaði til um stund. Á sínu fyrsta starfsári var komin ákveðin mynd á reksturinn sem gaf fyrirheit um að hægt væri að vinna niður núverandi biðlista á einhverjum þremur árum. Ljóst var þó að enn myndi bætast við, kannski ekki síst vegna þess að við erum í fararbroddi hvað varðar viðurkenningu og þekkingu á ADHD ef litið er til okkar helstu nágrannalanda í Evrópu,“ útskýrir Vilhjálmur og bætir við að nú hálfu öðru ári síðar telji biðlistinn um 2.400 einstaklinga.

Nýta ekki fyrirliggjandi greiningar frá sjálfstætt starfandi sálfræðingum og stofum

Aðgengi fullorðinna að ADHD greiningu hefur einnig verið skert og bendir Vilhjálmur á nýjar klínískar leiðbeiningar Embættis landlæknis sem hafi verið löngu tímabær endurskoðun en segir þó að tvennt orki tvímælis.

„Annars vegar krafa um að greingin sé framkvæmd af heilbrigðistarfsmönnum með sérþekkingu í ADHD greiningum. Þetta er svipað krafa og gerð er varðandi einhverfu greiningu, en munurinn sá að hægt er að fá vottun varðandi hæfi til einhverfugreininga. Ekkert slíkt á við um þetta varðandi ADHD. Ekki neitt. Hins vegar er óljós krafa um að greiningarnar skuli framkvæmdar í teymisvinnu, án þess að sú lýsing sé útskýrð nánar,“ útskýrir hann.

„Í haust tilkynnti svo ADHD teymi fullorðinna hjá HH að vegna þessara krafna yrði hætt að taka mark á greiningum sálfræðinga „utan úr bæ.“ Sú ákvörðun mun hægja mjög svo á afkastagetu teymisins. Ef rýnt er milli lína fæ ég ekki betur séð en stærsta ástæðan hér sé skortur á fjármagni. Teymið fékk um helming þess sem beðið var um og ljóst að fjárveiting þessa árs muni ekki duga út árið,“ bætir Vilhjálmur við.

„Þetta er grafalvarleg staða sem heilbrigðisráðherra og fjárveitingarvaldið verða að taka á með hraði,“ segir hann.

Ástandið hvergi jafn slæmt og hér

Eins og staðan er í dag segir Vilhjálmur að nær ómögulegt sé að komast að hjá geðlækni og enn sé langt í að hægt verði að bæta úr þeirri stöðu. „Upphafleg nálgun ADHD teymis fullorðinna hjá Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins lofaði þó góðu, en aukið fjármagn þarf til að sú hugmund gangi upp og/eða að hægt verði að setja upp álíka þjónustu af öðrum aðilum,“ segir hann. 

Spurður hvort svipuð vandamál séu í nágrannalöndum okkar segir Vilhjálmur það vera misjafnt endir löndum. „Víða finnast biðlistar, m.a vegna takmarkaðs aðgengi að fagaðilum líkt og hér heima. Þess utan eru heilbrigðiskerfin skemmra á veg komin varðandi þekkingu og viðurkenningu á málefnum tengdum ADHD greiningum og meðferð. Hvergi er þó ástandið jafn slæmt og hér, ekki síst hvað varðar biðtíma barna og ungmenna,“ útskýrir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert