„Ekki kyssa barnið“

Ljósmóðirin Helga Reynisdóttir er með mikilvæg skilaboð til samfélagsins.
Ljósmóðirin Helga Reynisdóttir er með mikilvæg skilaboð til samfélagsins. Ljósmynd/Unsplash

Að undanförnu hefur talsvert borið á hinum ýmsu pestum í samfélaginu. Að gefnu tilefni birti ljósmóðirin Helga Reynisdóttir mikilvæg skilaboð á Instagram-reikningi sínum. 

„RS-vírusinn, inflúensa og Covid eru í góðu svingi í þjóðfélaginu núna. Vissir þú að RS-vírusinn getur verið saklaust kvef hjá fullorðnum en getur lagst þungt á yngstu krílin. Ekki fara í heimsókn til nýrra foreldra nema að vera 150% í standi, sprittaðu þig og ekki kyssa barnið, nema þú eigir það,“ skrifaði Helga. 

Hefur helst áhyggjur af RS-veirunni

Í gær ræddi Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, við blaðamann Morgunblaðsins um þær pestir sem herja nú á landsmenn. Hún segir mikið vera af kórónuveirunni í samfélaginu í bland við alls konar aðrar pestir.

Aðspurð segist Ragnheiður hafa mestar áhyggjur af RS-veirunni enda geti hún reynst ungum börnum hættuleg. Hún minnir fólk á að æskilegt sé að halda sér til hlés finni maður fyrir einkennum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert