Er hægt að neyða barn til að umgangast foreldri?

Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda.
Tinna Rut Torfadóttir sálfræðingur svarar spurningum lesenda. Samsett mynd

Tinna Rut Torfadóttir, sálfræðingur á sálfræðistofunni Sálarlíf, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá foreldri sem spyr hvað barn eigi að gera sem er neytt til þess að umgangast foreldri sem það vill ekki umgangast?

 

Góðan daginn.

Það er því miður alltaf  börnin sem fara verst út úr samslitum foreldra. Allt of oft fjallað um tálmun foreldra. Mín spurning er hvað á foreldri, sem á barn sem er neytt til að umgangast foreldri sitt, að gera?

Kveðja, 

BC

Kæra foreldri. 

Takk fyrir þessa stóru spurningu. En við henni er ekkert eitt skýrt svar. Ef barn vill ekki umgangast foreldrið sitt þá er mikilvægt að komast að því hvers vegna svo er. Það er hægt að gera með því að fara í nákvæma kortlagningu á því og mæli ég eindregið með því að barnið hitti til þess óháðan fagaðila. Fagaðilinn getur þá reynt að komast að rót vandans (af hverju barnið vill ekki fara) og koma þá með leiðir til lausna í kjölfarið. En mikilvægast af öllu er að komast að því af hverju barnið vill ekki fara, er það eitthvað sem felst í hegðun foreldrisins gagnvart barninu, aðbúnaði eða aðstæðum á heimilinu, eitthvað í umhverfi barnsins hjá foreldrinu eða er um að ræða ef til vill aðskilnaðarkvíða frá hinu foreldrinu, s.s. að barnið eigi erfitt með að skilja við foreldrið sem það vill vera hjá. Eða gæti verið að það sé eitthvað í fortíð barnsins sem hafi þessi áhrif, eitthvað sem barnið hefur séð eða heyrt og þarf ef til vill aðstoð við að vinna úr til þess að geta haldið áfram.

Einnig er hægt að leita til Barnverndar í ykkar sveitarfélagi og fá þar nánari og persónulegri ráðgjöf með hag barnsins í fyrirrúmi.

Með von um að þetta hafi eitthvað hjálpað.

Gangi ykkur sem allra best!

Bestu kveðjur, Tinna 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Tinnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka