Prinsinn fallinn frá

Prince á Billboard verðlaununum 2013.
Prince á Billboard verðlaununum 2013. AFP

Enn ein goðsögnin er fallin frá og eftir sitja aðdáendur í áfalli. Prince fannst látinn á heimili sínu í Minnesota í morgun en svo virðist sem Prince hafi verið að glíma við einhvers konar veikindi. Flugmaður flugvélar sem hann var um borð í fyrir viku þurfti að nauðlenda í Illinois vegna veikinda söngvarans og var hann lagður inn en útskrifaður þremur tímum síðar. Talsmenn söngvarans sögðu hann þá einfaldlega með flensu en á batavegi. Þá kom Prince fram opinberlega á laugardaginn og fullvissaði aðdáendur sína um að hann væri í fullu fjöri og ekki væri þörf á að biðja fyrir honum enn sem komið væri.

Fyrri frétt mbl.is: Prince er látinn

Það var fjölmiðlafulltrúi Prince, Yvette Noel-Schure, sem staðfesti andlát tónlistarmannsins í tilkynningu. Sagði hún að ekki væri hægt að gefa upp dánarorsök hans að svo stöddu.

Fullt nafn söngvarans var Prince Rogers Nelson en hann fæddist í Minneapolis 7. júní árið 1958 og hefði því orðið 58 ára gamall í sumar.

Það er óhætt að segja að hann hafi verið hæfileikaríkur, bæði sem söngvari, lagahöfundur, hljóðfæraleikari, upptökustjóri og leikari. Margir sögðu hann einfaldlega tónlistarlegan snilling en hann var einnig tískufyrirmynd og ötull talsmaður réttinda listamanna.

Prince afhendir verðlaun á Grammy hátíðinni á síðasta ári. Sjálfur …
Prince afhendir verðlaun á Grammy hátíðinni á síðasta ári. Sjálfur hlaut hann sjö Grammy verðlaun á ferlinum. AFP

Héldu ekki vatni yfir síðustu tónleikum

Andlát hans er nú í rannsókn en ljóst er að Prince hafði verið að berjast við einhvers konar veikindi. Hann stóð í miðju tónleikaferðalagi og hélt hann síðustu tónleikana 14. apríl í Atlanta. Fyrr í mánuðinum þurfti hann að aflýsa tvennum tónleikum vegna flensu.

Á heimasíðu miðasölunnar Ticketmaster má sjá að aðdáendur tónlistarmannsins héldu varla vatni yfir tónleikum Prince í Atlanta.

„Ég er agndofa yfir hæfileikum hans og sköpunargleði,“ skrifaði notandi sem sagði Prince vera enn með sömu rödd og fyrir 30 árum. „Tónleikarnir hans voru töfrandi ... Ég ætla í ferðalag til þess að sjá hann spila næst. Láttu þér batna Prinsinn minn!“

Þá sagðist annar hafa grátið aðeins á tónleikunum því þeir hefðu verið svo magnaðir. Það er ljóst að Prince var í fullu fjöri tónlistarlega þegar hann féll frá.

Gaf út fyrstu plötuna tvítugur

Prince fékk sitt sérstaka nafn eftir djasshljómsveit sem faðir hans var meðlimur í, Prince Roger Trio. Prince þurfti þó ekki að bíða lengi eftir sínum eigin tónlistarferli en hann samdi við útgáfurisann Warner Brothers sem unglingur en fyrsta plata Prince, For You, kom út árið 1978 þegar hann var tvítugur.

Prince var afkastamikill lagasmiður og gaf út fjórar plötur á árunum 1978-1981, fyrrnefnda For You, Prince, Dirty Mind og Controversy.  Alls gaf hann þó út 39 plötur.

Prince árið 2011.
Prince árið 2011. AFP

Purple Rain kom honum á kortið

Segja má að Prince hafi slegið almennilega gegn í kvikmyndinni „Purple Rain“ sem kom út árið 1984 og var byggð að hluta til á ævi tónlistarmannsins. Með Purple Rain varð Prince ofurstjarna og hlaut hann m.a. Óskarsverðlaun fyrir lagið Purple Rain. Platan úr myndinni sló sölumet en hún seldist í rúmlega 25 milljónum eintaka.



Á hápunkti ferils síns á níunda áratugnum var Prince of borinn saman við Michael Jackson, sem var talinn hans helsti keppinautur. Prince var þó vinmargur í bransanum og vann með tónlistarmönnum eins og Kate Bush, Madonnu, Patti LaBelle, Chaka Khan, Cyndi Lauper og fyrrverandi ástkonu sinni, Sheilu E.

Eins og fyrr segir var Prince ötull baráttumaður þess að listamenn pössuðu upp á réttindi sín gagnvart útgáfufyrirtækjum. Árið 1993 lenti hann í lagadeilum við Warner Brothers út af launum og meðan á dómsmerðferðinni stóð kom hann oft fram opinberlega með orðið „þræll“ eða „slave“ skrifað á kinnina. Þá lét hann kalla sig „listamaðurinn áður þekktur sem Prince“ eða The Artist Formerly Known as Prince.

Í gegnum árin var Prince sagður eiga í ástarsamböndum við fjölmargar stjörnur eins og Kim Basinger, Madonnu, Carmen Electra og Susönnu Hoffs. Þegar hann var 37 ára kvæntist hann hinni 22 ára gömlu Mayte Garcia en þau kynntust þegar hún starfaði sem dansari á tónleikum hans. Þau gengu í hjónaband á valentínusardaginn 1996 og eignuðust soninn Boy Gregory í október sama ár. Hann fæddist þó með Pfeiffer-heilkennið og lést viku síðar. Prince og Mayte skildu árið 1999. Prince kvæntist Manuelu Testolini árið 2001 en þau skildu fimm árum síðar. Síðasta ástarsamband Prince sem vitað var af var við tónlistarkonuna Briu Valente árið 2007.

Með margbreytilegri rödd sinni og raddsviði varð Prince átrúnaðargoð margra annarra tónlistarmanna. Þeir sem hafa nefnt Prince sem áhrifavald eru m.a. Bruno Mars, Beyoncé, Alicia Keys og Lenny Kravitz.

Prince hlaut sjö Grammyverðlaun á ferlinum og var vígður inn í Rock & Roll Hall of Fame árið 2004.

Prince á tónleikum 1986
Prince á tónleikum 1986 Af Wikipedia
Prince á tónleikum 1990
Prince á tónleikum 1990 Af Wikipedia
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt vont með að losna við tiltekna hugmynd úr kollinum þessa dagana. Mundu að ekkert er þess virði að missa heilsuna fyrir það.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt vont með að losna við tiltekna hugmynd úr kollinum þessa dagana. Mundu að ekkert er þess virði að missa heilsuna fyrir það.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir