Aðeins eitt er víst í þessum heimi: eitt sinn verða allir menn að deyja. Engu að síður virðast dauðsföll í heimi stjarnanna það sem af er ári koma sérlega illa við samfélagið. Eins og Roland Hughes skrifar fyrir BBC virðist varla líða vika án þess að tilkynnt sé um andlát innan heims fræga fólksins; David Bowie lést í janúar og leikarinn Alan Rickman viku síðar. Þá lést breski grínistinn Victoria Wood í vikunni og goðsögnin Prince lést í gær.
„Nú er nóg komið 2016!“ og fleiri áþekkar upphrópanir hafa sést víða á samfélagsmiðlum en Hughes varpar fram þeirri spurningu hvort þetta sé kannski nýja normið.
Spurning hans ratar til Nick Serpell, ritstjóra minningargreina á BBC, sem segir fjölda andláta þýðingarmikilla einstaklinga á árinu vera „ótrúlegan“. Starf Nick fellst í að undirbúa minningargreina fyrir sjónvarp, útvarp og netútgáfur BBC sem eru birtar þegar andlát þekktra einstaklinga eru staðfest.
Hann staðfestir að gríðarleg aukning hafi verið á birtingu greina frá honum, á öllum miðlum BBC á síðustu árum. Frá janúar til seinni hluta mars 2012 voru aðeins birtar fimm slíkar tilkynningar en á þessu ári hafa 24 andlátstilkynningar birst á miðlinum. Tilkynningarnar hafa þannig fimmfaldast og það án þess að andlát apríl mánaðar séu tekin með.
En gæti verið að BBC hafi einfaldlega aukið við safn sitt af forunnum minningargreinum? Það eru svo sannarlega fleiri minningargreinar í safni BBC en þegar Serpell hóf störf fyrir um 10 árum síðan, um 1.500 alls, og hann bætir fleiri greinum við í hverri viku. En sé litið út fyrir BBC er ljóst að svarið er ekki svo einfalt.
Í Bretlandi heldur Daily Telegraph úti myndasafni yfir frægt fólk sem hefur látist og uppfærir það reglulega í gegnum árið. Á þessum árstíma árið 2014 voru 38 í safninu og í fyrra voru þeir 30. Í ár er talan þegar komin upp í 75.
Í umfjöllun sinni bendir Hughes á vefsíðuna Deathlist.net sem á hverju ári býr til lista yfir 50 stjörnur sem hann telur að muni látast á árinu. Sex af síðustu tíu árum hafa tveir eða færri af spádómum síðunnar ræst fyrir þennan tíma en í ár hafa fimm einstaklingar á listanum látist.
Nick Serpell segir að fyrir þessu séu nokkrar ástæður.
„Fólk sem hóf frægðarferil sinn á sjöunda áratugnum er núna að komast á áttræðisaldur og byrjað að deyja,“ segir hann. „Það er líka meira til af frægu fólki en áður. Í kynslóð föður míns eða afa var eina fræga fólkið úr kvikmyndunum. Það var ekkert sjónvarp. Seinna, ef einhver var ekki í sjónvarpinu, var hann ekki frægur.“
Margir þeirra sem nú eru að deyja tilheyrðu „baby-boomer“ kynslóðinni svokölluðu sem fæddist miklli 1946 og 1964 þar sem gríðarleg fjölgun var á mannfjölda. Í Bandaríkjunum er t.a.m. talið að 76 milljónir, eða 23 prósent mannfjöldans árið 2014 hafi tilheyrt þessari kynslóð. Í Bretlandi er fólk yfir 65 ára aldir um 18 prósent mannfjöldans, 47 prósentum meira en fyrir 40 árum.
Aukin fæðingartíðni leiddi til þess að fleiri urðu frægir en áður og nú er þessi kynslóð, á aldrinum 52 til 70 ára, byrjuð að deyja. Hughes segir að í Bretlandi fari dánartíðni mjög svo hækkandi á aldursbilinu 65 til 69, 14,2 af hverjum 1.000 körlum á því aldursbili hafi látist árið 2014 samanborið við 9,4 af hverjum 1.000 á aldrinum 60 til 64. Fjölmargir þeirra sem látist hafa það sem af er ári eru af „baby-boomer“ kynslóðinni, þar á meðal öll þau sem tilgreind voru í fyrstu málsgrein þessarar greinar. Prince var 57 ára og Wood 62 ára en Rickman og Bowie voru báðir 69 ára og hafa margir velt því fyrir sér hvort 69 sé hinn nýji 27-ára klúbbur stjarnanna.
Annað sem gæti leitt til þeirrar upplifunar að fleiri stjörnur séu að skilja við en áður er sú staðreynd að við þekkjum mun fleira frægt fólk en áður. „Samfélagsmiðlar hafa leikið stórt hlutverk á síðustu tíu árum,“ segir Serpell.
Aðeins fáeinum klukkutímum áður en tilkynnt var um dauða Prince flugu sorgarskilaboð um slíka miðla vegna andláts glímukappans og klámstjörnunnar Chyna sem lést, 45 ára að aldri. Þó hún væri þekktust í Bandaríkjunum einskorðaðist sorgin ekki við Norður-Ameríku. Hátt í 400 þúsund tíst með orðinu Chyna voru send frá öllum heimshornum á fimmtudag og komu flest þeirra raunar frá Lagos í Nógeríu og Lima í Perú. Þessa dagana er einfaldlega mun auðveldara að frétta af andlátum fólks en nokkurn tíma í fortíðinni.
Slæmu fréttirnar eru því þær að líklega mun dauðsfallahrinan halda áfram.
„Yfir næstu tíu ár mun þetta fólk ná á níræðisaldur og þetta mun halda áfram á þessu stigi. Og þar eru ekki meðtalin óvænt dauðsföll, þegar fólk deyr sem ætti ekki að gera það.“
Sem stendur er í það minnsta ljóst að hálftíma samantektin sem Serpell býr til fyrir fréttaþátt BBC við lok hvers árs verður lengri en vanalega.
Síðustu ár hefur samantektin verið hálftími en í ljósi stöðunnar, fjórum mánuðum inn í árið 2016, hefur hann þegar fengið leyfi til að gera þáttinn klukkutíma langan.