Framkvæmdastjórnin segir af sér sem heild

Leon Brittan, sem fór með viðskiptamál í framkvæmdastjórn ESB, og …
Leon Brittan, sem fór með viðskiptamál í framkvæmdastjórn ESB, og Jacques Santer, forseti framkvæmdastjórnarinnar, skoða skýrsluna í gær. Reuters
Brussel. Reuters.
ALLIR tuttugu meðlimir framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) sögðu af sér í gærkvöld eftir að stjórnarhættir hennar voru harðlega gagnrýndir í skýrslu óháðrar nefndar sérfræðinga sem lögð var fram í gær. Greindi Jacques Santer, forseti framkvæmdastjórnarinnar, frá þessu á fréttamannafundi rétt fyrir miðnætti í gærkvöld en fyrr um kvöldið höfðu ýmsir þingmenn Evrópuþingsins farið fram á afsögn framkvæmdastjórnarinnar. Afsögn framkvæmdastjórnarinnar hleypir samstarfi evrópuríkjanna á vettvangi ESB í mikið uppnám en einungis fáeinir mánuðir eru síðan ellefu aðildarríki ESB tóku upp sameiginlegan gjaldmiðil, evruna. Jafnframt voru í undirbúningi gagngerar umbætur á fjármálum sambandsins, áður en nokkrum fyrrverandi austantjaldsþjóðum yrði hleypt inn í sambandið. "Vegna þessarar skýrslu [...] hafa meðlimir framkvæmdastjórnarinnar einróma samþykkt að segja af sér allir sem einn," sagði Santer á fréttamannafundinum í gær eftir neyðarfund framkvæmdastjórnarinnar.  Bráðabirgðastjórn tekur nú að sér að stýra málefnum ESB þar til ríkisstjórnir aðildarlanda ESB eru búnar að tilnefna nýja fulltrúa í framkvæmdastjórnina.  Neil Kinnock, sem ábyrgur var fyrir samgöngumálum í framkvæmdastjórninni, sagði í viðtali við Sky-sjónvarpsstöðina í gærkvöld að þótt hann teldi sig ekki hafa gerst sekan um spillingu í starfi væri hann samþykkur ákvörðuninni, öll framkvæmdastjórnin hefði orðið að fara sem heild. "Ég er sammála því að við tökum sameiginlega ábyrgð - en ég samþykki ekki sameiginlega sekt," sagði Kinnock.  Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði í yfirlýsingu í gærkvöld að fulltrúar Bretlands í framkvæmdastjórninni, Kinnock og Sir Leon Brittan, sem fór með viðskiptamál, hefðu ekki orðið uppvísir að neinum misferlum og að breska stjórnin myndi tilnefna mennina tvo í framkvæmdastjórnina á nýjan leik.

Evrópuþingmenn kröfðust afsagnar

 Áður en framkvæmdastjórnin hóf fund sinn hafði Pauline Green, formaður þingflokks jafnaðarmanna á Evrópuþinginu, hvatt alla framkvæmdastjórnina til að segja af sér. Sagði hún að gerði framkvæmdastjórnin það ekki myndu jafnaðarmenn leggja til á Evrópuþinginu næstkomandi mánudag að vítur yrðu samþykktar á framkvæmdastjórnina.  Þingflokkur jafnaðarmanna er sá stærsti á Evrópuþinginu en ýmsir aðrir Evrópuþingmenn beindu sjónum sínum einkum að Edith Cresson, öðrum fulltrúa Frakklands í hinni 20 manna framkvæmdastjórn, en undir hana heyrir meðal annars menntamálasamstarfsáætlunin Leonardo. Sannast hefur að í kringum þessa áætlun viðgekkst fjármálaóreiða, sem Cresson er gerð ábyrg fyrir, en í skýrslunni er hún jafnframt sögð hafa hyglað vinum sínum að a.m.k. einu sinni.  Hin óháða spillingarrannsóknarnefnd var sett á laggirnar í kjölfar þess að borin var upp tillaga um vantraust á framkvæmdastjórnina í janúar sl. Var nefndinni ætlað að fara í saumana á spillingarásökunum á hendur framkvæmdastjórn ESB. Segir í skýrslu hennar að fundist hafi dæmi um að meðlimir framkvæmdastjórnarinnar væru ábyrgir fyrir misferli, jafnvel þótt þeir hefðu sjálfir ekki hagnast fjárhagslega á því. Eru þeir ennfremur gagnrýndir fyrir að vilja ekki gangast við þessari ábyrgð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert