Ráðgjafi Bush: al-Qaeda vill gera umfangsmiklar árásir á Bandaríkin

Reyk leggur frá turnum World Trade Center í New York …
Reyk leggur frá turnum World Trade Center í New York skömmu eftir árásirnar 11. september 2001. AP

Al-Qaeda hryðjuverkasamtökin vonast til að geta gert mikla árás á Bandaríkin, sem verði enn fleiri að bana og verði enn umfangsmeiri en árásinar á New York og Washington 11. september 2001, að því er helsti ráðgjafi Hvíta hússins sagði í dag. „Þeir vilja eitthvað sem er meira en 11. september. Þeir vilja gera hrikalega árás,“ sagði Frances Townsend, ráðgjafi George W. Bush, Bandaríkjaforseta, í öryggismálum innan Bandaríkjanna í samtali við Fox sjónvarpsstöðina í dag.

Ummæli Townsend eru gerð einni viku eftir að bandarísk stjórnvöld hækkuðu viðbúnaðarstig í fjármálahverfum í Washington og á New York svæðinu, vegna hættu á hryðjuverkum. Til þessa ráðs var gripið eftir að upplýsingar bárust um að al-Qaeda væru að ráðgera árás á Bandaríkin.

Ákvörðun stjórnarinnar var gagnrýnd því gögnin sem lögð voru til grundvallar hækkuðu viðbúnaðarstigi voru þriggja ára gömul. Townsend sagði hins vegar í dag að ógnin væri raunveruleg og svo virtist sem aukinn viðbúnaður hefði haft letjandi áhrif á skipuleggjendur árásana sem sagðar voru yfirvofandi.

Hún viðurkenndi að meginhluti upplýsinganna sem leiddi til hækkunar viðbúnaðarstigs hefðu verið frá því fyrir árásirnar 11. september 2001, en hélt því jafnframt fram að sumar þeirra hefðu verið nýjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert