John McCain kallar forseta Hvíta-Rússlands einræðisherra

John McCain heilsar Viktor Yushtsjenko, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Úkraínu, í …
John McCain heilsar Viktor Yushtsjenko, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Úkraínu, í vikunni. AP

Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn John McCain sagði í dag að Alexander Lukashenko, forseta Hvíta-Rússlands væri einræðisherra og að fyrirhugaðar kosningar í landinu í október væru aðeins sýndarmennska. McCain er staddur í Lettlandi ásamt bandarískri þingmannanefnd en von er á þingmönnunum til Íslands í næstu viku.

Lukashenko, sem var kjörinn forseti árið 1994, hefur sætt gagnrýni á Vesturlöndum fyrir stjórnarhætti sína. Er hann m.a. sakaður um að bæla andóf niður með harðri hendi og setja bönd á fjölmiðla.

Alexander Lukashenko, forseti, hefur hagrætt stjórnarskránni til að styrkja sig í sessi," sagði McCain. „Hann hefur fyrirskipað að andófsmenn og blaðamenn væru látnir hverfa. Hann stjórnar Hvíta-Rússlandi eins og það væri Sovétríkin og hefur komið á stjórnarháttum ótta, kúgunar og geðþótta."

Nokkrir leiðtogar stjórnarandstöðunnar í Hvíta-Rússlandi komu á fund McCains og bandarísku þingmannanna í Riga, höfuðborg Lettlands, og tóku þeir undir orð McCains. Einn þeirra, Valery Frolov, sagðist telja að Lukashenko yrði ekki lengi í embætti forseta.

McCain og hinir bandarísku þingmennirnir óskuðu upphaflega eftir því að fá að heimsækja Hvíta-Rússland í Evrópuferðinni en hvít-rússnesk stjórnvöld höfnuðu því. Utanríkisráðuneyti Hvíta-Rússlands stakk upp á því að þingmennirnir fengju að koma til landsins eftir að forsetakosningum í báðum ríkjum væri lokið. Hvít-Rússar kjósa forseta í október en Bandaríkjamenn í nóvember.

Í bandarísku þingmannanefndinni í Lettlandi eru auk McCains þau Susan Collins, John Sununu og Lindsey Graham. Þau fóru til Úkraínu fyrr í þessari viku og hvöttu þar til þess að haldnar yrðu frjálsar forsetakosningar.

Hillary Clinton bætist í hóp þingmannanna í kvöld þegar þeir fara til Eistlands. Þingmennirnir fara síðan til Noregs og Íslands áður en þeir halda heim á leið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert