Demókratar hvetja Bush til að fjölga ekki í herliðinu í Írak

Bandarískir og íraskir hermenn á eftirlitsgöngu í Haditha í Írak.
Bandarískir og íraskir hermenn á eftirlitsgöngu í Haditha í Írak. Reuters

Leiðtogar Demókrataflokksins í Bandaríkjunum hafa hvatt George W. Bush, Bandaríkjaforseta, til að fjölga ekki í herliði Bandaríkjamanna í Írak en búist er við að Bush tilkynni í næstu viku að hann hafi ákveðið að senda fleiri hermenn þangað. Bush er jafnframt að endurskoða stefnu sína í málefnum Íraks og hefur m.a. verið skipt um menn í mörgum stöðum, sem tengjast Íraksmálum. Þar á meðal hefur verið skipt um tvo af helstu herforingjum Bandaríkjanna í Írak.

Bush sagði í gær, að frekari samræður þyrftu að fara fram áður en hann gæti kynnt breytta stefnu í Íraksmálum. En bandarískir fjölmiðlar segja að reikna megi með því, að Bush tilkynni að hermönnum í Írak verði fjölgað um 10-20 þúsund og þeirra hlutverk verði einkum að taka þátt í að afvopna herskáa hópa í og við Bagdad, höfuðborg Íraks.

Demókratar hafa nú meirihluta í báðum þingdeildum Bandaríkjaþings. Harry Reid, nýr forseti öldungadeildarinnar og Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, hafa sameiginlega sent Bush bréf og segja, að Bandaríkjaher hafi ekki efni á að senda fleiri hermenn til Íraks enda vandséð hvaða gróði væri af því.

Þau hvetja þess í stað til endurskipulagningar heraflans í áföngum, sem hefjist eftir 4-6 mánuði og verði áhersla lögð á þjálfun, birgðaflutninga og aðgerðir gegn hryðjuverkastarfsemi í Írak.

Á fréttavef BBC er haft eftir Justin Webb, fréttaritara BBC í Washington, að um sé að ræða djarft skref af hálfu demókrata og vísbendingu um að hörð pólitísk átök séu í uppsiglingu. Ekki er hægt að hindra, að Bush sendi fleiri hermenn til Írak en slíkt kann að reynast honum afar dýrtkeypt pólitískt ef slík ákvörðun mætir harðri andstöðu Bandaríkjaþings.

Robert Gates, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti í gærkvöldi að mannabreytingar hefðu orðið í yfirstjórn Bandaríkjahers í Írak. William Fallon, aðmíráll, mun taka við af John Abizaid, hershöfðinga, sem yfirmaður heraflans í Írak og Afganistan og David Petraeus, aðstoðarhershöfðingi, mun taka við af George Casey, hershöfðingja, sem yfirmaður hernaðaraðgerða í Írak.

Í gær var einnig staðfest að John Negroponte, sem var yfirmaður leyniþjónustustofnana í Bandaríkjunum, tekur við embætti aðstoðarutanríkisráðherra og Michael McConnell, aðmíráll í sjóhernum, tekur við starfi Negropontes. Þá mun Zalmay Khalilzad, sendiherra í Írak, taka við embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum í stað Johns Boltons og Ryan Crocker, núverandi sendiherra í Pakistan, fer til Íraks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert