Sönnunargögn lágu vikum saman á vettvangi

Amanda Knox vip upphaf réttarhaldanna yfir henni
Amanda Knox vip upphaf réttarhaldanna yfir henni AP

Monica Napoleoni, yfirmaður morðrannsóknadeildar lögreglunnar í í Perugia á Ítalíu, staðfesti fyrir rétti í dag að sönnunargögn í málaferlunum gegn bandarísku stúlkunni Amanda Knox og ítalska piltunum Raffaele Sollecito hafi ekki verið fjarlægð af vettvangi fyrr en sex vikum eftir morðið á bresku stúlkunni Meredith Kercher.

Knox og Sollecito eru sökuð um að hafa myrt Kercher ásamt þriðja manninum Rudy Guede í ástarleik. Guede hefur þegar verið sakfelldur fyrir aðild að morðinu. Napoleoni viðurkenndi við réttarhöldin í dag að mistök hafi verið gerð við varðveislu sönnunargagna og að brjóstahaldari, sem er eitt af lykilsönnunargögnum saksóknara, hafi legið óvarinn í íbúðinni vikum saman eftir að glæpurinn var framinn.

Erfðaefni Sollecito fannst á brjóstahaldaranum, sem Kercher átti, en verjandi hans segir brjóstahaldarann ótækan sem sönnunargagn  þar sem hann hafi þvælst um allt húsið eftir glæpinn og m.a. legið um tíma undir gólfteppi.  

Lögreglumaður greindi frá því við réttarhöldin í morgun að hegðun ungmennanna, eftir að upp komst um morðið, hafi strax vakið athygli lögreglu. Þau hafi verið ósamvinnuþýð við yfirheyrslur lögreglu en sama tíma sýnt hvort öðru mikla ástúð. Þá hafi þau ekki sýnt nein merki þess að dauði Kercher hefði nokkur áhrif á þau.

Þau hafi flissað, hlegið og grett sig hvort framan í annað og Kercher m.a. hafa stytt sér stundir við það á lögreglustöðinni að fara í heljarstökk.

Knox og Sollecito halda bæði fram sakleysi sínu í málinu. Við yfirheyrslur lögreglu sagðist Knox hafa verið í húsinu, sem hún leigði með Kercher, er hún var myrt og að hún hafi heyrt hana æpa. Hún breytti síðan framburði sínum og segist nú ekki hafa verið í húsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert